Veftré Print page English

Fundur með forsætisráðherra Québec


Forseti á fund með Philippe Couillard, forsætisráðherra Québec, við upphaf heimsóknar til fylkisins. Forsætisráðherra sótti í fyrra þing Arctic Circle í Reykjavík ásamt þátttakendum frá háskólasamfélaginu í Québec.  Á fundinum ákváðu forsætisráðherra og forseti að Québec yrði formlegur aðili að Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle. Þátttaka Québec í Arctic Circle myndi fyrst og fremst miðast við að efla framlag háskóla og rannsóknarstofnana, styrkja þátttöku samtaka frumbyggja og umhverfissinna og kynna hina merku Norðuráætlun, Plan Nord, sem fylkið samþykkti fyrir fáeinum árum. Þá ræddu forseti og forsætisráðherrann einnig um þá hugmynd að á næsta ári myndi Arctic Circle efna til málþings í Québec í samvinnu við stjórn fylkisins þar sem fyrst og fremst yrði fjallað um svæðaþróun á Norðurslóðum og árangurinn af Plan Nord lagður til grundvallar. Myndir.