Veftré Print page English

Spánarkonungur. Íslandsdagar í Barcelona.


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti í dag, þriðjudaginn 17. febrúar, fund  með Filippusi VI Spánarkonungi og mun á morgun og á fimmtudag taka þátt í fjölþættri dagskrá Íslandsdaga sem haldnir verða í Barcelona.


Forsetahjónin hittu Filippus VI Spánarkonung síðdegis í Zarzuela höllinni í Madrid. Á fundinum með forseta var rætt um endurreisn efnahagslífsins á Íslandi og lærdómana sem draga má af glímu þjóðarinnar við afleiðingar bankahrunsins. Þá var fjallað um erfiðleika í efnahagslífi Spánar og stöðuna á evrusvæðinu, aukið mikilvægi Norðurslóða, árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku og baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Þá ræddu forseti og konungur einnig um langvarandi vináttu Íslendinga og Spánverja, vinsældir saltfisksins á Spáni og aukið mikilvægi bókmennta og lista í samstarfi landanna. Fundinn sátu einnig utanríkisráðherra Spánar José García-Margallo y Marfil, sendiherra Íslands gagnvart Spáni, Berglind Ásgeirsdóttir, og sendiherra Spánar gagnvart Íslandi, Antonio López Martínez.


Forseti Íslands og Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsækja á morgun La Sirena verslunarkeðjuna í Barcelona sem skipar veigamikinn sess í sölu sjávarafurða. Þá flytur forseti fyrirlestur við IESE háskólann um lærdómana af glímu Íslendinga við fjármálakreppuna og ræðir í hádeginu við blaðamenn og fulltrúa fjölmiðla. Síðdegis á morgun heimsækja forsetahjónin sjávarútvegsfyrirtækin Iceland Seafood og Copesco Sefrisa og taka þátt í bókmenntakynningu þar sem m.a. rithöfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir og Óttar Norðfjörð lesa úr verkum sínum og þýðandinn Enrique Bernández fjallar um íslenskar bókmenntir á Spáni.


Á dagskrá fimmtudagsins verður m.a. heimsókn á Santa Caterina fiskmarkaðinn og hádegisverður með fulltrúum íslenskra fyrirtækja sem taka þátt í Íslandsdögunum. Þá á forseti fund með Xavier Trias borgarstjóra og einnig fund með Miquel Valls formanni verslunarráðs borgarinnar. Forseti flytur svo ávarp á málþingi um menningu og viðskipti.


Dagskrá Íslandsdaganna í Barcelona hefur verið undirbúin af Íslandsstofu, sendiráði Íslands gagnvart Spáni og Sol Daurella, ræðismanni Íslands í Barcelona


17. febrúar 2015