Veftré Print page English

Fundur með indverskum ráðamönnum


Forseti á fund með fulltrúum nýrrar ríkisstjórnar á Indlandi, Suresh Prabhu ráðherra, dr. Vinay Sahasrabuddhe, varaforseta BJP flokksins og stjórnanda rannsóknarmiðstöðvarinnar Public Policy Center og embættismönnum þeirra. Rætt var um þátttöku Indlands í samstarfi á Norðurslóðum, en Indland fékk árið 2013 áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, hið nýja samstarf á Himalajasvæðinu sem fjallað var um á samráðsþinginu í Bútan og þjálfun ungra indverskra jöklafræðinga á Íslandi en það verkefni var sett á laggirnar fyrir nokkrum árum í samvinnu við Háskóla Íslands. Þá var einnig rætt um nýtingu jarðhita á Indlandi en íslenskir aðilar hafa unnið að slíkum áformum í samvinnu við heimamenn. Fundinn sat einnig Þórir Ibsen sendiherra Íslands á Indlandi.