Veftré Print page English

Zayed orkuverðlaunin. Heimsþing hreinnar orku


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tók í morgun, mánudaginn 19. janúar, þátt í setningarathöfn Heimsþings hreinnar orku, World Future Energy Summit, sem haldið er í Abu Dhabi. Á setningarathöfninni fór einnig fram afhending Zayed orkuverðlaunanna en þau eru viðamestu verðlaun sinnar tegundar í veröldinni, kennd við stofnanda Arabísku furstadæmanna og veitt forystumönnum í alþjóðamálum, vísindamönnum, rannsóknarstofnunum, baráttusamtökum og fyrirtækjum sem rutt hafa brautir breytinga í orkubúskap og leitt baráttu gegn loftslagsbreytingum. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson er formaður dómnefndar verðlaunanna en alls nemur verðlaunaféð fjórum milljónum Bandaríkjadala eða um tæpum hálfum milljarði íslenskra króna.

Að þessu sinni hlaut Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna og nóbelsverðlaunahafi, sérstök heiðursverðlaun fyrir forystu í baráttu gegn loftslagsbreytingum. Aðrir verðlaunahafar voru frumkvöðlasamtökin Liter of Light frá Filippseyjum fyrir að útbreiða og kynna ódýr heimasmíðuð sólartæki í fátækrahverfum þróunarlanda, M-Kopa frá Kenýju fyrir að greiða fátækari íbúum í Austur-Afríku aðgang að hreinni orku og Panasonic fyrir að efla hlut hreinnar orku og orkusparnaðar í framleiðslu og notkun á margvíslegum tækjabúnaði. Einnig fengu nemendur fimm framhaldsskóla, eins í hverri heimsálfu, verðlaun fyrir frumkvæði að aukinni sjálfbærni skólanna í orkunotkun.

Heimsþing hreinnar orku sækja nokkur þúsund sérfræðingar, vísindamenn, forystumenn í atvinnulífi og stjórnendur rannsóknarstofnana víða að úr veröldinni. Í tengslum við þingið er haldin viðamikil sýning á tækninýjungum á sviði nýtingar og framleiðslu hreinnar orku og tekur þátt í henni fjöldi fyrirtækja og rannsóknarstofnana, einkum frá Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku.

Forseti Íslands mun einnig taka þátt í sérstakri athöfn á sýningarsvæðinu sem helguð verður öllum framhaldsskólunum sem tilnefndir voru til Zayed orkuverðlaunanna og hefur hópum nemenda frá öllum skólunum verið boðið til Abu Dhabi í þessu skyni.

Þá hefur Ségolène Royal, orku- og umhverfisráðherra Frakklands, boðið forseta að ávarpa þátttakendur í kvöldverði Jarðhitabandalagsins, Global Geothermal Alliance. Einnig mun forseti flytja ræðu við opnun nýrrar norrænnar skrifstofu á Masdar svæðinu en þar hafa allar byggingar verið reistar á grundvelli reglunnar um enga mengun og enga sóun – „zero waste, zero emission“. Skrifstofunni er ætlað að veita norrænum fyrirtækjum aðstöðu og liðsinni við að kynna nýjungar sínar, tækni og framleiðslu í Mið-Austurlöndum. Mun starfræksla hennar geta nýst kynningu á jarðhitatækni Íslendinga.

Meðan á þinginu stendur mun forseti einnig eiga aðra fundi, m.a. með starfsfólki Zayed verðlaunanna og öðrum þátttakendum í þinginu. Í kvöld verður svo fundur forseta með Al Gore og er aðalefni hans að ræða horfurnar á víðtæku samkomulagi þjóða um aðgerðir til að stemma stigu við hrikalegum loftslagsbreytingum.


Myndir má nálgast á heimasíðu embættisins.


19.  janúar 2015