Rannsóknir á íslenskum hestum við Cornell háskóla
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson heimsótti um helgina rannsóknarstöð dýralæknadeildar Cornell háskóla í Bandaríkjunum þar sem stundaðar eru rannsóknir á íslenskum hestum. Markmið rannsóknanna er að kanna orsakir sumarexems eða ofnæmis sem hrjáir marga íslenska hesta eftir að þeir hljóta ný heimkynni í öðrum löndum. Slík veikindi hafa verið alvarlegt vandamál á undanförnum árum og áratugum.
Rannsóknunum stýrir prófessor Bettina Wagner og eru þær unnar í samstarfi við tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Matvælastofnun. Ásamt prófessor Wagner tók Michael Kotlikoff, deildarforseti dýralæknadeildar Cornell háskóla, og aðrir sérfræðingar deildarinnar á móti forseta og útskýrðu eðli og tilgang rannsóknanna.
Markmið þeirra er að finna orsakir þessa ofnæmis og þróa í kjölfarið greiningaraðferðir og leggja grundvöll að þróun lyfja sem komið geta í veg fyrir að þessi veikindi þjái íslenska hesta sem fluttir verða til annarra landa.
Rúmlega 60 hestar voru fluttir frá Íslandi árið 2010 vegna rannsóknanna og eru þeir á sérstökum hestabúgarði í nágrenni við háskólasvæðið þar sem tryggt er að rannsóknirnar geti farið fram án óeðlilegra utanaðkomandi áhrifa. Áætlað er að rannsóknunum ljúki árið 2016.
Myndir af þeim hestum sem eru notaðir við rannsóknirnar má nálgast á vefsíðunni http://sandmeadow.smugmug.com/Events/Icelandic-Horse-Breeding/Cornell-University-Young-Horse og nánari upplýsingar um rannsóknirnar eru á vefsíðu tilraunastöðvarinnar á Keldum, http://keldur.is/rannsoknir_a_sumarexemi_modurahrif.Myndir frá heimsókn forseta má nálgast á vefsíðu forsetaembættisins, forseti.is.
24. nóvember 2014