Veftré Print page English

Cornell háskólinn. Safn íslenskra bókmennta og sögu


Forseti heimsótti í morgun safn íslenskra bókmennta og sögu við Cornell háskólann í New York ríki. Safnið ber heitið The Fiske Icelandic Collection og hefur í rúma öld verið einn helsti vettvangur rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum í Bandaríkjunum.

Við þetta tækifæri sæmdi forseti Patrick J. Stevens, stjórnanda safnsins, riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir áratuga framlag hans til kynningar á íslenskum bókmenntum og sögu.

Stofnandi safnsins, Daniel Willard Fiske, var pennavinur Jóns Sigurðssonar forseta á upphafsárum sjálfstæðisbaráttunnar og fleiri íslenskra forystumanna á sviði menningar og stjórnmála. Patrick Stevens vitnaði í þakkarræðu sinni m.a. í ávarp sem Fiske flutti í Reykjavík árið 1879 á sérstakri samkomu sem þá var haldin honum til heiðurs.

Fjölmargir fræðimenn hafa starfað á vettvangi Fiske safnsins en þar hefur munað mest um forystu Halldórs Hermannssonar prófessors sem flutti safnið til Bandaríkjanna og stjórnaði því á fyrri hluta síðustu aldar.

Cornell háskóli er meðal fremstu háskóla í Bandaríkjunum og þakkaði forseti skólanum fyrir þá alúð sem hann hefði lagt við Fiske safnið.Í heimsókninni skoðaði forseti fjölmörg merk og sjaldgæf rit sem varðveitt eru í Fiske safninu.

Myndir frá heimsókninni í safnið og athöfninni má nálgast síðar í dag.