Sjónvarpsstöðin PBS
Forseti ræðir við þáttagerðarmenn bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar PBS sem um árabil hafa annast sérstaka þætti um þróun alþjóðamála þar sem leitast er við að varpa nýju ljósi á ýmis alþjóðleg vandamál. Rætt var um þróun samstarfs á Norðurslóðum, árangur Norðurskautsráðsins, tækifærin sem felast í Hringborði Norðurslóða og þátttöku ríkja í Asíu og Evrópu í því samstarfi. Einnig var fjallað um framlag Íslendinga til nýtingar jarðhita í Asíu og Afríku sem og áhuga margra á að efla Ísland sem bækistöð fyrir varðveislu gagna, m.a. í ljósi hagkvæmni þess að reka gagnaver á Íslandi og í krafti þess lýðræðis og opinnar umræðu sem einkennt hefur landið.