Veftré Print page English

Áratugur hreinnar orku. Setningarathöfn


Áratugur sjálfbærrar orku. Setningarathöfn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna

 

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tók ásamt framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna Ban Ki-moon og framkvæmdastjóra Alþjóðabankans Jim Yong Kim þátt í setningarathöfn Áratugar sjálfbærrar orku sem haldin var í morgun, fimmtudaginn 5. júní, í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Forseti Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, John Ashe, flutti einnig ávarp við athöfnina.

 

Áratugur sjálfbærrar orku 2014-2024 er liður í baráttu Sameinuðu þjóðanna gegn loftslagsbreytingum og fyrir aðgangi allra íbúa jarðar að sjálfbærri og endurnýjanlegri orku. Áratugurinn hefur verið undirbúinn með samstarfi fjölmargra alþjóðastofnana og á grundvelli tillagna sérfræðinga, rannsóknarstofnana og stjórnvalda víða um heim.

 

Í gær, miðvikudaginn 4. júní, hófst í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna sérstök undirbúningsráðstefna þessa mikla átaks og sækir hana fjöldi forystumanna, fulltrúar ríkja, einkum frá Afríku og Asíu, og stjórnendur fyrirtækja og sérfræðistofnana. Ráðstefnan heldur áfram í dag og á morgun.

 

Í ávarpi sínu áréttaði forseti reynslu og árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku og rakti hvernig tækniframfarir á því sviði gerðu nú öllum þjóðum heims, sérstaklega þróunarríkjum, kleift að ná verulegum árangri á komandi árum. Í krafti tækninýjunga undanfarinna ára gæti virkjun hreinnar orku nýst fátækum jafnt sem hinum efnameiri, þorpum jafnt sem borgum. Hún veitti hinum snauðustu meðal jarðarbúa tækifæri til sjálfsbjargar og framfara.

 

Forseti Íslands hefur frá því í fyrra setið í ráðgjafahópi um sjálfbæra orku handa öllum (Sustainable Energy for All, SE4ALL) sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna Ban Ki-moon og framkvæmdastjóri Alþjóðabankans Jim Yong Kim settu á stofn.

 

Nánari upplýsingar um SE4ALL verkefnið má nálgast á vef þess, www.se4all.org.

 


5.  júní 2014