Veftré Print page English

Sendiherra Rússlands


Forseti á fund með nýjum sendiherra Rússlands, hr. Anton Vsevolodovich Vasilyev, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum en hann var áður fastafulltrúi Rússlands í Norðurskautsráðinu. Rætt var um langvarandi samvinnu Íslands og Rússlands, viðskiptaþróun frá fyrstu árum lýðveldisins þegar útflutningur á sjávarafurðum til Rússlands skipti sköpum fyrir efnahagslíf þjóðarinnar, sem og margvísleg menningartengsl fyrr og nú, m.a. listviðburði á Íslandi og í Rússlandi á síðasta ári þegar haldið var upp á 70 ára afmæli stjórnmálasambands landanna. Þá var einnig fjallað um stöðu mála í Úkraínu, mikilvægi þess að tryggja frið og góða sambúð allra sem hlut eiga að máli, framgang kosninga og lýðræðis og efla jákvæða samvinnu þeirra þjóða sem vilja stuðla að árangursríkri þjóðfélagsþróun í Úkraínu. Koma yrði í veg fyrir beitingu vopnavalds og tryggja framgang alþjóðlegra skuldbindinga. Söguleg tengsl Rússlands og Úkraínu, sem og sameiginleg menning og saga trúar ættu að hvetja þjóðirnar til friðsamlegrar sambúðar og gagnkvæms trausts í framtíðinni. Einnig var rætt um vaxandi samvinnu á Norðurslóðum, reynslu sendiherrans af þeim vettvangi, aukið mikilvægi Norðurslóða fyrir íslenska hagsmuni sem og nauðsyn þess að tryggja áframhald þess árangurs sem náðst hefur á undanförnum árum. 

 

Russland