Gullmerki ASF. Hátíðarsamkoma
Á hátíðarsamkomu American-Scandinavian Foundation í New York í gærkvöldi, 1. maí, var forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson sæmdur gullmerki samtakanna fyrir framlag sitt til samvinnu Íslands við Bandaríkin og forystu og framtíðarsýn í alþjóðamálum.
American-Scandinavian Foundation eru aðalsamtök fólks af norrænum uppruna í Bandaríkjunum og hafa í rúma öld unnið að kynningu á menningu og þjóðlífi Norðurlanda í Bandaríkjunum.
Í ávarpi sem Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur flutti þegar hann afhenti forseta viðurkenninguna fyrir hönd American-Scandinavian Foundation lýsti hann m.a. langvarandi sambandi forseta og samstarfi við forystumenn á mörgum sviðum bandarísks þjóðlífs og stjórnkerfis, kynningu hans á árangri Íslendinga við nýtingu jarðhita og hreinnar orku, baráttu gegn loftslagsbreytingum og nýlega sérstakri áherslu á málefni Norðurslóða og stofnun Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, í samvinnu við áhrifafólk í Bandaríkjunum.
Í þakkarræðu forseta Íslands minntist hann m.a. hátíðarhaldanna árið 2000 víða um Bandaríkin í tilefni af 1000 ára afmæli landafundanna, sýningarinnar í þjóðminjasafni Bandaríkjanna, Smithsonian, á arfleifð víkinga og samskiptum þeirra við frumbyggja í Bandaríkjunum. Forseti rakti einnig hvernig vaxandi áhersla á Norðurslóðir væri að skapa ný og mikilvæg viðfangsefni í samvinnu Bandaríkjanna og Norðurlanda.Fyrr í gær sat forseti fyrir svörum í viðtali sem sýnt verður á netsíðu hins virta tímarits Foreign Affairs. Í viðtalinu var einkum rætt um þróun samvinnu á Norðurslóðum, vaxandi áhuga ríkja í Asíu og fyrirtækja víða um heim sem og framlag Bandaríkjanna og Rússlands til þess árangurs sem náðst hefur á undanförnum árum.
Þá flutti forseti lokaræðu í gær á ráðstefnu um stöðu kvenna og kynjajafnrétti á Íslandi og í Bandaríkjunum. Ráðstefnan var skipulögð af Íslensk-ameríska verslunarráðinu og American-Scandinavian Foundation og haldin í Norræna húsinu í New York (Scandinavia House). Í umræðum á ráðstefnunni tóku þátt meðal annarra Gréta Gunnarsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Herdís Fjelsted og Guðborg Gló Logadóttir.Þá sótti forseti einnig ráðstefnu DLD samtakanna, sem haldin er í New York, þar sem fjallað var um áhrif upplýsingatækni og hönnunar á þróun nútímasamfélaga en aðalráðstefna DLD er haldin í München ár hvert.
Ræðu forseta á hátíðarsamkomu ASF má nálgast á heimasíðu embættisins sem og myndir.
2. maí 2014