Veftré Print page English

Hafráðstefna Google


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í gær, miðvikudaginn 23. apríl, setningarræðu á hafráðstefnu Google sem haldin er í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Kaliforníu.
Ráðstefnan fjallar um verndun auðlinda hafsins, nýtingu upplýsingatækni til að efla sjálfbærar fiskveiðar og hvernig styrkja megi eftirlit með veiðum og vinnslu. Jafnframt eru á ráðstefnunni rakin ýmis dæmi um árangursríkar aðgerðir á þessu sviði og rætt hvernig stuðla megi að samvinnu stjórnvalda, atvinnulífs og almennings í þágu verndunar hafanna, bæði innan og utan efnhagslögsögu einstakra landa.


Ráðstefnuna sækja sérfræðingar, vísindamenn og tæknifræðingar víða að úr veröldinni sem og ýmsir stjórnendur Google. 


Í ræðunni lýsti forseti reynslu Íslendinga við að tengja saman upplýsingatækni og eftirlit með veiðum og vinnslu, sem og árangri við að nýta allan afla sem berst á land, m.a. þurrkun hausa, vinnslu heilsuvöru úr innyflum og tískuvöru úr roði. Á þann hátt nýti Íslendingar nú á arðbæran hátt um og yfir 90% af aflanum á meðan flestar aðrar fiskveiðiþjóðir hendi um helmingi hans. Um leið og stefnt væri að sjálfbæru skipulagi veiða væri nauðsynlegt að breyta vinnsluaðferðum fyrirtækja í átt að fullri nýtingu.
Þá fjallaði forseti um mikilvægi varðveislu sjávarauðlinda á Norðurslóðum og ræddi hugsanlegt samstarf við Google um beitingu upplýsingatækni og gervihnatta í þessu skyni.


Kvöldið áður hélt forseti fyrirlestur í boði Alþjóðaráðs San Francisco og Samveldissamtaka Kaliforníu, World Affairs Council and Commonwealth Club of California. Fyrirlesturinn, sem bar heitið People and Ice: The new global significance of the Arctic and the Himalayas, fjallaði um áhrif bráðnunar íss og jökla á Norðurslóðum og Himalajasvæðinu á samfélög, efnahagslíf og framtíðarhorfur.


Forseti rakti þróun aukinnar samvinnu á Norðurslóðum, bæði innan vébanda Norðurskautsráðsins og á öðrum vettvangi svo sem Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle. Þá lýsti forseti hvernig reynsla íbúa Norðurslóða gæti nýst samfélögum og þjóðum á Himalajasvæðinu. Á síðustu þremur árum hefði verið unnið að samræðu og samvinnu í þessu skyni, bæði með fundum á Íslandi og annars staðar. Að fyrirlestri loknum svaraði forseti fyrirspurnum.
Ræður forseta og myndir má nálgast á heimasíðu embættisins.


24. apríl 2014