Veftré Print page English

Afmælishátíðir á Seltjarnarnesi og í Grindavík


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú taka í dag og á morgun þátt í hátíðarhöldum á Seltjarnarnesi og í Grindavík í tilefni af fertugsafmæli kaupstaðanna tveggja. 


Heimsókn forsetahjóna á Seltjarnarnes hefst í dag miðvikudag klukkan 13:00 í Mýrarhúsaskóla þar sem þau munu skoða sýningu nemenda í fylgd Ólínu Thoroddsen skólastjóra og fylgjast með hátíðardagskrá nemenda á sal skólans. Afmælishátíð hefst á Eiðistorgi klukkan 17:15. Þar munu forseti Íslands og Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri flytja ávörp, tónlistarmenn og kórar koma fram og ungmenni úr Selinu flytja atriði úr söngleiknum Bugsy Malone. Í kvöld verða síðan hátíðartónleikar í Seltjarnarneskirkju.

 

Heimsókn forsetahjóna til Grindavíkur hefst á morgun fimmtudag í Hópsskóla um klukkan 10:30, en þar hefur 1.-3. bekkur Grunnskóla Grindavíkur aðsetur. Nemendur kynna forsetahjónum afrakstur þemaviku skólans þar sem fjallað var með fjölbreyttum hætti um sögu Grindavíkur. Þeir munu einnig syngja fyrir forsetahjónin á sal skólans. Við Ásabraut eru 4.-10. bekkur Grunnskóla Grindavíkur til húsa. Þar munu nemendur og starfsfólk skólans taka á móti forsetahjónum um kl. 11:15 og bjóða til uppskeruhátíðar þemavikunnar. Forseti mun jafnframt ræða við nemendur á sal skólans. Forsetahjónin sitja afmæliskaffi með eldri borgurum Grindavíkur í Miðgarði kl. 14:30 og kl. 17:00 verður forseti Íslands viðstaddur hátíðarfund bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar.

 

Afmælishátíð Grindavíkur lýkur með viðamikilli dagskrá í Grindavíkurkirkju klukkan 18:00 þar sem forseti flytur ávarp.

 

9. apríl 2014