Sendiherra Rússlands
Forseti á fund með Andrey Tsyganov, sendiherra Rússlands á Íslandi, sem senn lætur af störfum. Rætt var um alþjóðlegan ágreining og átök vegna atburðanna á Krímskaga, stöðu Úkraínu og nauðsyn þess að virða alþjóðalög. Einnig væri áríðandi að draga úr spennunni, koma í veg fyrir stigmögnun átaka og að leita lausna með samræðum og víðtæku samkomulagi. Mikilvægt væri að varðveita árangursríka samvinnu á öðrum vettvangi, m.a. á Norðurslóðum. Nefnt var að á síðasta ári hefðu Íslendingar og Rússar minnst 70 ára afmælis stjórnmálasamskipta með merkum menningarviðburðum, einkum tónleikum Vladimirs Spivakovs og hljómsveitar hans í Hörpu og stórri yfirlitssýningu á verkum Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals í Rússneska ríkislistasafninu í Pétursborg.