Veftré Print page English

Heimsókn til Hólmavíkur


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsækja Hólmavík og nágrenni á morgun, mánudaginn 24. mars. 


Heimsókn forsetahjóna hefst í Grunn- og tónskóla Hólmavíkur  klukkan 9:00 þar sem nemendur og starfsfólk sjá um dagskrá, forseti flytur ávarp og svarar fyrirspurnum. Þaðan verður haldið að leikskólanum Lækjarbrekku og eftir heimsókn þangað liggur leiðin í rækjuvinnsluna Hólmadrang. Forsetahjón munu jafnframt kynna sér starfsemi Vegagerðarinnar og Orkubús Vestfjarða en síðasti áfangastaður fyrir hádegi verður Þróunarsetrið á Hólmavík þar sem fram fer fjölþætt starfsemi á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og sveitarstjórnar auk þess sem nemendur á framhaldsskóla- og háskólastigi hafa aðstöðu þar til að stunda fjarnám.


Forsetahjón munu heimsækja Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hólmavík í hádeginu, kynna sér starfsemina og snæða hádegisverð með heimilisfólki og starfsmönnum. Heimsókn forsetahjóna til Hólmavíkur og nágrennis lýkur í Sauðfjársetrinu á Ströndum þar sem þau munu m.a. skoða sýningarnar Sauðfé í sögu þjóðar og Álagablettir.


23. mars 2014