Fundir og viðræður í Sochi
Forseti á fund með forseta Finnlands, Sauli Niinistö, í tengslum við Vetrarólympíuleikana í Sochi. Rætt var um vaxandi samvinnu Íslands og Finnlands í málefnum Norðurslóða, mikilvægi þeirra í þróun norrænnar samvinnu, góðan árangur af Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið var í Reykjavík 2013 og undirbúning að þingi Arctic Circle 2014. Þá átti forseti einnig fund með Albert II, fursta í Mónakó, sem á sæti í heiðursráði Hringborðs Norðurslóða. Rætt var um vaxandi alþjóðlegan áhuga á málefnum Norðurslóða sem m.a. birtist í þátttöku um 40 þjóða í þingi Arctic Circle í Reykjavík. Rætt var um þróun Hringborðsins á næstu árum og málefni sem yrðu á dagskrá þess í Reykjavík í haust. Þá átti forseti viðræður við forseta Tékklands, Miloš Zeman, um góða samvinnu ríkjanna í tíð tveggja fyrirrennara hans, Václav Havel og Václav Klaus, og árangur af opinberri heimsókn forseta til Tékklands 2012. Í viðræðum forseta við Xi Jinping, forseta Kína, þakkaði forsetinn Íslendingum fyrir framlag þeirra til þróunar hitaveitna í kínverskum borgum en slíkar framkvæmdir drægju mjög úr loftmengun. Þá lýsti forseti Kína ánægju með fríverslunarsamning landanna og vaxandi samstarf í málefnum Norðurslóða en vísindaferð rannsóknarskipsins Snædrekans um Norðurslóðir og til Íslands hefði skilað miklum árangri. Í viðræðum forstea við Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, kom fram mikil ánægja hans með árangurinn af heimsókn til Íslands nýlega og ósk um að Íslendingar tækju öflugan þátt í loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður árið 2015. Í viðræðum forseta við Friðrik krónprins Danmerkur og erkihertogann af Lúxembúrg, sem báðir sitja í stjórnarnefnd Alþjóðaólympíusambandsins, var og fjallað um hve víðtækur undirbúningurinn að Vetrarólympíuleikunum hefur verið á undanförnum árum. Myndir.