Móttökuathöfn í Sochi
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og forsetafrú Dorrit Moussaieff voru í morgun fimmtudaginn 6. febrúar viðstödd móttökuathöfn fyrir íslenska keppnisliðið í Ólympíuþorpinu í Sochi. Forseti ÍSÍ, Lárus Blöndal, og framkvæmdastjóri, Líney R. Halldórsdóttir, voru einnig viðstödd athöfnina. Leikinn var þjóðsöngur Íslands og þjóðfáninn dreginn að húni í Ólympíuþorpinu. Að því loknu heimsóttu forsetahjónin íbúðir íslensku keppendanna, skoðuðu Ólympíuþorpið og snæddu hádegisverð með íslensku keppendunum í matsal þorpsins þar sem fjölbreyttir réttir víða að úr veröldinni eru á boðstólum.
Móttökuathöfninni stjórnaði borgarstjóri Ólympíuþorpsins, Svetlana Zhurova, fyrrum Ólympíumeistari í skautahlaupi, og fylgdi hún síðan forsetahjónum og íslensku keppendunum um Ólympíuþorpið sem staðsett er í Kákasusfjöllum skammt frá Sochi.
Í kvöld sitja forsetahjónin hátíðarkvöldverð í boði forseta Alþjóðaólympíusambandsins, Thomas Bach.
Myndir má nálgast á heimasíðu forsetaembættisins.
6. febrúar 2014