Veftré Print page English

Heimsókn Danadrottningar


Margrét II Danadrottning hefur þekkst boð forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar um að heimsækja Ísland og taka þátt í viðburðum sem helgaðir eru 350 ára afmæli Árna Magnússonar handritasafnara. Með í föruneyti drottningar er Manu Sareen, samstarfsráðherra Norðurlanda í dönsku ríkisstjórninni, auk embættismanna úr dönsku hirðinni.

 

Danadrottning kemur til landsins á morgun, þriðjudaginn 12. nóvember, og situr annað kvöld hátíðarkvöldverð forseta Íslands á Bessastöðum. Að morgni miðvikudagsins 13. nóvember munu sagnfræðingarnir Guðjón Friðriksson og Jón Þ. Þór afhenda Danadrottningu fyrsta eintakið af tveggja binda verki sínu um Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands í 500 ár. Athöfnin fer fram í Þjóðmenningarhúsinu og þar mun Danadrottning jafnframt skoða handritasýninguna í leiðsögn dr. Guðrúnar Nordal forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar.

 

Eftir hádegi hlýðir drottning á afmælisfyrirlestur dönsku fræðikonunnar Annette Lassen í hátíðasal Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 13:30 og ber heitið Sagaer i samtiden: Árni Magnússons storslåede arv. Við það tækifæri munu jafnframt flytja ávörp Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar. Í kjölfar hátíðardagskrár í Háskóla Íslands mun Danadrottning heimsækja tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu.

 

Drottning verður síðan viðstödd opnun sýningarinnar Íslenska teiknibókin – 350 ára afmæli Árna Magnússonar í Gerðarsafni í Kópavogi síðdegis miðvikudaginn 13. nóvember. Þar munu Guðbjörg Kristjánsdóttir sýningarstjóri og Guðrún Nordal flytja ávörp en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra opnar sýninguna.

 

Dagskrá vegna 350 ára afmælis Árna Magnússonar handritasafnara lýkur með viðamikilli hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu sem hefst kl. 19:30. Forseti Íslands og forsætisráðherra flytja ávörp auk fræðimanna og rithöfunda; tónlistarmenn og leikarar bjóða til fjölbreyttrar dagskrár sem helguð er íslenskum miðaldabókmenntum og arfleifð Árna Magnússonar.
Margrét II Danadrottning heldur aftur heimleiðis til Kaupmannahafnar að morgni fimmtudagsins 14. nóvember. 

 

11. nóvember 2013