Fundur forseta og Ma Kai. Samvinna við Kína
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti í morgun ítarlegar viðræður við varaforsætisráðherra Kína Ma Kai og sendinefnd hans á fundi sem hófst á Bessastöðum kl. 9:00, sunnudaginn 27. október.
Á fundinum var rætt um vaxandi samvinnu Íslands og Kína um nýtingu jarðhita og rannsóknir á bráðnun íss og jökla á Norðurslóðum og á Himalajasvæðinu. Einnig hefði gerð samninga um fríverslun og gjaldeyrisskipti seðlabanka sýnt að þótt Ísland og Kína væru ólík á margan hátt hefðu löndin á undanförnum árum skapað fjölmörg fordæmi um nýjungar á sviði alþjóðlegrar samvinnu. Hin nýja öld gæti því orðið tími jákvæðra samskipta og árangurs í þágu allra þjóða.
Ma Kai fagnaði því að hitaveitur, sem byggðar hefðu verið í samvinnu við Íslendinga í kínverskum borgum, væru nú þegar að minnka mengun, bæta heilsu íbúanna og opna Kínverjum nýja sýn á nýtingu jarðvarma, m.a. til ræktunar í gróðurhúsum og þurrkunar matvæla. Mikilvægt væri að efla enn frekar samvinnu við Ísland á sviði fjölþættrar nýtingar jarðhita.
Þá var ítarlega rætt um samvinnu vísindamanna, háskóla og rannsóknarstofnana varðandi athuganir á bráðnun íss og jökla, bæði á Norðurslóðum og á Himalajasvæðinu. Þátttaka kínverskra forystumanna í Arctic Circle þinginu, sem nýlega var haldið í Reykjavík, væri vitnisburður um mikilvægi þessara samskipta sem og ferð rannsóknarskipsins Snædrekans í fyrra frá Shanghæ til Íslands. Einnig hefðu fundir sérfræðinga sem fjölluðu um lærdómana sem samvinna á Norðurslóðum gæti fært ríkjunum á Himalajasvæðinu skilað miklum árangri. Í viðræðum forseta og Ma Kai kom fram eindreginn vilji til að efla þetta samstarf enn frekar enda hefði bráðnun íss mikil áhrif á veðurfar og stöðu sjávarborðs um allan heim.
Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi þess að þróa félagsleg og pólitísk réttindi, hvernig ný upplýsingatækni opnar almenningi leiðir til að tjá sig í auknum mæli, taka þátt í umræðum og stefnumótun.
Forseti Íslands þakkaði kínverskum stjórnvöldum fyrir þann stuðning sem þau veittu Íslandi í kjölfar fjármálakreppunnar þegar ýmis önnur ríki hefðu reynt að þvinga íslenskan almenning til að taka á sig skuldir bankanna. Þá hefðu forseti og forsætisráðherra Kína sýnt vinarhug í verki með gerð samninga milli Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Kína, yfirlýsingum um fjárfestingar og fjármálasamskipti sem og vinnu við gerð fríverslunarsamnings landanna, hins fyrsta sem Kínverjar gerðu við ríki í Evrópu.
Við lok fundarins gaf Ma Kai forseta Íslands safnrit ljóða sem hann hefur sjálfur ort og birt eru í ritinu ásamt enskum þýðingum. Þakkaði forseti þessa góðu gjöf enda hefðu ljóðabækur ávallt verið í hávegum hafðar á Bessastöðum þar sem mörg íslensk skáld hefðu setið á skólabekk.Myndir frá fundinum og afhendingu ljóðabókarinnar má nálgast á heimasíðu forsetaembættisins.
27. október 2013