Veftré Print page English

Sextán ungmennum í Fjarðabyggð veitt Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga


Á fjölskylduhátíð í Fjarðabyggð sem haldin var á Eskifirði í gærkvöldi, mánudaginn 21. október, hlutu eftirtalin 16 ungmenni viðurkenningu forseta Íslands. Viðurkenningin ber heitið Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga.

  • Aleksey Vitaliy Kolosov 10 ára, Reyðarfirði. Hann hefur jafnan lagt sig vel fram við námið og náð prýðilegum árangri. Aleksey hefur líka sýnt mikla staðfestu og hugrekki í baráttu við veikindi sín.
  • Ásgeir Páll Magnússon 13 ára, Fáskrúðsfirði. Hann er mjög samviskusamur og duglegur nemandi, prúður í samskiptum við aðra, kappsfullur knattspyrnumaður og var einn af vinningshöfum í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda 2012.
  • Bergþóra Ósk og Hanna Líf Arnarsdætur 14 ára, Stöðvafirði. Þær systur hafa tekist á við sáran ástvinamissi af miklu æðruleysi og mæta lífinu með opnum og jákvæðum huga.
  • Birkir Freyr Andrason 14 ára, Neskaupstað. Hann æfir bæði fótbolta og blak af miklum dugnaði og keppir í báðum greinum, ekki bara með jafnöldrum sínum heldur líka eldri félögum. Birkir er líka duglegur og samviskusamur námsmaður.
  • Draumey Ósk Ómarsdóttir 15 ára, Reyðarfirði. Hún er fróðleiksfús og hugmyndarík, samviskusöm og metnaðarfull í námi og hefur einnig  tekið virkan þátt í félagsstörfum.  
  • Elísabet Eir Hjálmarsdóttir 12 ára, Fáskrúðsfirði. Hún hefur sýnt mikla þrautsegju í námi sínu og sigrast á mörgum hindrunum, er dugleg og samviskusöm í hverju því sem hún tekur sér fyrir hendur og virk í íþróttum.
  • Eva Dröfn Jónsdóttir 13 ára, Fáskrúðsfirði. Hún er samviskusöm og drífandi, íþróttakona í sundi og fótbolta, duglegur námsmaður og hefur auk þess stundað tónlistarnám í mörg ár, bæði gítarnám og söngnám, og var valin í úrslitakeppni Nótunnar og fór í Hörpuna í úrslitakeppni Nótunnar.
  • Guðrún Edda Gísladóttir 13 ára, Eskifirði. Hún er samviskusöm og hugsar vel um nám sitt og annað sem hún ber ábyrgð á, vandvirk og iðin, með hlýja nærveru og með kurteisi og tillitssemi sýnir hún gott fordæmi öllum þeim sem með henni starfa. Fas hennar og ljúfleg framkoma er öðrum til eftirbreytni.
  • Jóhannes Kristinn Hafsteinsson 15 ára, Stöðvafirði. Hann er mjög virkur í félagsstarfi og er alltaf fús að taka að sér þau verk sem þarf að vinna, jákvæður og lífsglaður, stundvís og áreiðanlegur.
  • Jónas Þórir Þrastarson 10 ára, Reyðarfirði. Hann er jákvæður og lífsglaður, prúður í samskiptum öllum og lætur ekki glímu við erfiðan sjúkdóm hindra sig í námi og félagslífi. 
  • Kristrún Thanyathon Rangsiyo 9 ára, Neskaupstað. Hún er öflugur námsmaður, jafnt á bókina sem í námi sínu í Tónskóla Neskaupstaðar. Hún er líka afar virk í íþróttum. 
  • Patrycja Rymon–Lipinska 13 ára, Eskifirði. Hún er efnileg myndlistarkona þrátt fyrir ungan aldur, ágæt söngkona og öflug í öllum listum. Þá hefur Patrycja náð prýðilegum tökum á íslenskri tungu og sinnt námi sínu af stakri prýði. 
  • Sigfús Valur Guðmundsson 11 ára, Mjóafirði. Hann er tápmikill og duglegur, hefur sigrast á ýmsum erfiðleikum, verið jákvæður í allri framgöngu og sinnt námi sínu af samviskusemi.
  • Sóley Arna Friðriksdóttir 14 ára, Eskifirði. Hún er kraftmikill nemandi, jafnt í grunnskóla sem í tónlist, virk í stjórn félagslífsins innan skólans  sem og í félagsmiðstöðinni Knellunni þar sem hún aðstoðar við starf yngri barna. Þá er Sóley virk í starfi kirkjunnar fyrir yngri börn. 
  • Þorvaldur Marteinn Jónsson 15 ára, Neskaupstað. Hann er mikill íþróttamaður, stundar skíðaíþróttina, knattspyrnu og blak af kappi. Hann er fylginn sér og ákveðinn ungur drengur. Þorvaldur er einnig mjög góður námsmaður og sýnir leiðtogahæfileika í sínum bekk.

22. október 2013