Veftré Print page English

Heimsókn forsetahjóna í Fjarðabyggð. Nánari upplýsingar um dagskrá


Í dag, mánudaginn 21. október, hefst heimsókn forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar og Dorrit Moussaieff forsetafrúar til Fjarðabyggðar. Heimsóknin stendur frá mánudegi til miðvikudags og heimsækja forsetahjónin skóla og aðra vinnustaði í Neskaupstað, á Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði. Að kvöldi mánudagsins verður haldin fjölskylduhátíð í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði; þar eru allir velkomnir og er aðgangur ókeypis.

 

Klukkan 8:15 mánudaginn 21. október heilsa Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar forseta við Hótel Capitano í Neskaupstað og að því loknu verður haldið í Nesskóla. Klukkan 9:15 hefst heimsókn í Verkmenntaskóla Austurlands og klukkan 10:00 verða forsetahjónin í Heilbrigðisstofnun Austurlands. Klukkan 10:30 skoða þau Safnahúsið og kynna sér starfsemi Náttúrustofu Austurlands. Í hádeginu klukkan 12:30 verða forsetahjónin í Eskju á Eskifirði og heimsækja að því loknu Grunnskóla Eskifjarðar klukkan 13:00. Þessu næst skoða þau Dahlshús þar sem komið hefur verið á laggirnar sýningarsal fyrir íslenska nútímalist og heimsækja svo ferðaþjónustuna á Mjóeyri. Klukkan 16:00 tekur forseti þátt í málstofu um alþjóðavæðingu á Norðurslóðum á vegum Austurbrúar í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði og er sá fundur öllum opinn. Þar eru málshefjendur auk forseta Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, og Embla Eir Oddsdóttir frá Norðurslóðaneti Íslands.

 

Á fjölskylduhátíðinni um kvöldið verður margvíslegur tónlistarflutn- ingur í boði heimamanna. Þar flytur forseti ávarp og afhendir Hvatningu til ungra Íslendinga en hátíðin hefst klukkan 20:00 og eru allir velkomnir á hana; aðgangur er ókeypis.

 

Þriðjudaginn 22. október hefst dagskráin með heimsókn forsetahjóna í Grunnskóla Reyðarfjarðar klukkan 9:00 og verður því næst haldið til Fáskrúðsfjarðar. Þar verður Skólamiðstöðin heimsótt klukkan 10:15 og svo skoða hjónin frönsku húsin og fræðast um uppbygginguna þar og skoða Gallerí Kolfreyju. Klukkan 12:00 verður litið inn hjá Loðnuvinnslunni Fáskrúðsfirði. Þessu næst verður haldið til Stöðvarfjarðar og koma forsetahjónin í Grunnskólann þar klukkan 14:00. Klukkan 15:10 hitta forsetinn og frú Dorrit Stöðfirðinga en þá verður opin samkoma í Safnaðarheimilinu á Stöðvarfirði þar sem boðnar verða kaffiveitingar og forseti ávarpar gesti. Að kvöldi þriðjudagsins sitja forsetahjónin svo kvöldverðarboð bæjarstjórnar Fjarðabyggðar í Randulffssjóhúsi.

 

Á miðvikudeginum hefst dagskrá heimsóknarinnar með því að klukkan 10:50 skoða forsetahjónin Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði. Að því búnu eða klukkan 11:30 heimsækja þau Slökkvilið Fjarðabyggðar og verða svo í álveri Alcoa Fjarðaáls í hádeginu en það er síðasti áfangastaðurinn í heimsókn forseta Íslands til Fjarðabyggðar að þessu sinni.

 

21. október 2013