Veftré Print page English

Heimsókn til Fjarðabyggðar


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú halda í heimsókn til Fjarðabyggðar að morgni mánudagsins 21. október næstkomandi. Heimsóknin stendur í þrjá daga og verða margir skólar og vinnustaðir heimsóttir í stærstu byggðarkjörnum sveitarfélagsins, Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði. Að kvöldi mánudagsins verður haldin fjölskylduhátíð í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði og þangað er öllum íbúum sveitarfélagsins boðið auk annarra gesta.


Fyrsta dag heimsóknarinnar, mánudaginn 21. október, heimsækja forsetahjónin Nesskóla, Verkmenntaskóla Austurlands, Fjórðungssjúkrahúsið og Náttúrustofu Austurlands í Neskaupstað. Þá verður haldið til Eskifjarðar þar sem þau hitta starfsmenn Eskju og Egersund, heimsækja Grunnskóla Eskifjarðar, skoða nýjan sýningarsal fyrir íslenska samtímalist í Dahlshúsi og heimsækja ferðaþjónustuna á Mjóeyri. Þá tekur forseti þátt í málstofu um Nýja Norðrið sem haldin er í samvinnu við Austurbrú  með þátttöku Norðurslóðanets Íslands.


Á fjölskylduhátíðinni um kvöldið verður margvíslegur tónlistar-flutningur í boði heimamanna. Þar flytur forseti ávarp og afhendir Hvatningu til ungra Íslendinga en hátíðin hefst klukkan 20:00 og eru allir velkomnir á hana; aðgangur er ókeypis.


Þriðjudaginn 22. október heimsækja forsetahjónin Grunnskóla Reyðarfjarðar og halda svo til Fáskrúðsfjarðar og heimsækja Skóla-miðstöðina þar. Þvínæst kynna þau sér fyrirætlanir um uppbyggingu frönsku húsaþyrpingarinnar, heimsækja Gallerí Kolfreyju og Loðnuvinnsluna Fáskrúðsfirði. Eftir hádegi fara forsetahjónin í Grunnskóla Stöðvarfjarðar, heimsækja Sköpunarmiðstöðina og sitja um kvöldið kvöldverð með bæjarfulltrúum í boði bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.


Miðvikudaginn 23. október lýkur heimsókn forseta Íslands í Fjarðabyggð með því að hann heimsækir fyrirtæki og stofnanir í Reyðarfirði og eru það Íslenska stríðsárasafnið, Slökkvilið Fjarðabyggðar og Alcoa Fjarðaál.

 

17. október 2013