Kjarvalssýning í Pétursborg. Rússnesk-íslensk orðabók
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson opnaði fyrr í dag, fimmtudaginn 26. september, yfirlitssýningu á verkum Jóhannesar Kjarvals í Rússneska ríkislistasafninu í Pétursborg. Sýningin, sem haldin er í tilefni af sjötíu ára afmæli stjórnmálasambands milli landanna, er ein veigamesta sýning á verkum Kjarvals sem sett hefur verið upp í höfuðlistasöfnum Evrópu.
Í ávarpi sínu lýsti forseti framlagi Kjarvals til sjálfsvitundar þjóðarinnar, tilfinninga Íslendinga gagnvart náttúrunni, hraunbreiðum, mosa, fjöllum, litadýrð og andstæðum sem og samspili við huldufólk og þjóðsögur. Ávarpið má nálgast á heimasíðu embættisins.
Við opnun sýningarinnar fluttu Sigrún Hjálmtýsdóttir og Jónas Ingimundarson íslenska og rússneska tónlist. Viðstaddir opnunina voru fjölmargir fulltrúar rússneskra fjölmiðla og var sérstakur blaðamannafundur haldinn áður en hún var opnuð þar sem til máls tóku fulltrúar Listasafns Reykjavíkur, Reykjavíkurborgar, Rússneska ríkislistasafnsins og menntamálaráðuneytis Rússlands ásamt forseta Íslands sem einnig svaraði fjölmörgum fyrirspurnum.
Í Pétursborg hefur forseti rætt við marga rússneska fjölmiðla, setið fyrir svörum í þætti sjónvarpsstöðvarinnar Channel 5 og átt fund með stjórnvöldum Pétursborgar. Á honum var fjallað um aukna samvinnu á Norðurslóðum, tækifæri í ferðaþjónustu og opnun nýrra siglingaleiða á Norðurslóðum.
Í Rússneska ríkislistasafninu var fyrr í dag athöfn þar sem tilkynnt var um sérstaka bókagjöf sem Menningarsamtök Íslands og Rússlands (MÍR) og ýmsar stofnanir og fyrirtæki standa að. Hún felur í sér að eintök af hinni yfirgripsmiklu Rússnesk-íslensku orðabók, sem Helgi Haraldsson prófessor ritstýrði, verða gefin fjölda bókasafna, lærdómssetra og háskóla í Rússlandi. Forseti afhenti þremur fulltrúum viðtakenda eintök bókarinnar. Bókagjöfin er í tilefni af 70 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Rússlands og tileinkuð minningu fjögurra rússneskra forystumanna sem á undanförnum áratugum unnu sérstaklega að því að treysta vináttu- og menningartengsl þjóðanna.
Þá hitti forseti einnig nokkra aldraða sjómenn sem voru á rússneskum skipum sem í síðari heimsstyrjöldinni tóku þátt í hinum mikilvægu norðursiglingum. Ísland gegndi sérstöku hlutverki í þessum siglingum og eru þær taldar hafa skipt sköpum í styrjöldinni. Nokkrir þessara öldruðu sjómanna tóku þátt í ráðstefnu sem haldin var á Íslandi fyrir fáeinum árum þar sem fræðimenn víða að úr veröldinni fjölluðu um hlutverk þessara siglinga.
26. september 2013