Fundur forseta og Ban Ki-moon
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti síðdegis í gær, 20. september, fund með Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í höfuðstöðvum samtakanna í New York. Á fundinum kom fram eindreginn stuðningur Ban Ki-moon við alþjóðlegt samstarfsverkefni um þurrkun matvæla sem byggt yrði á reynslu Íslendinga af þurrkun sjávarafurða. Fyrr um daginn átti forseti fund um þetta verkefni með nokkrum æðstu yfirmönnum Sameinuðu þjóðanna.
Samtvinnun hreinnar orku og eflingar fæðuöryggis í veröldinni er eitt af meginviðfangsefnum Sameinuðu þjóðanna á nýrri öld. Íslendingar hafa í áratugi þurrkað þorskhausa, beinagarða og annað sjávarfang, sem áður var hent, og flutt út til Afríku þar sem þær afurðir nýtast almenningi. Að undanförnu hefur fyrirtækið Haustak á Reykjanesi einnig þurrkað kjöt, ávexti og grænmeti í tilraunaskyni og sýnir sú reynsla að þurrkunaraðferðum Íslendinga má beita á margvíslegar afurðir.
Í heimsókn Ban Ki-moon til Íslands kynnti forseti framkvæmda-stjóran¬um hugmyndir um alþjóðlegt samvinnuátak á þessu sviði og voru fundirnir í New York framhald af þeim viðræðum.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti einnig miklum áhuga á auknu samstarfi á Norðurslóðum og kynnti forseti honum alþjóðlegt þing, Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle, sem haldið verður á Íslandi 12.-14. október, en þar verða þátttakendur frá ríkjum Norðurslóða, Asíu og Evrópu.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna gerði einnig grein fyrir stöðu mála í Sýrlandi og tilraunum sínum og Sameinuðu þjóðanna til að treysta þá samninga sem unnið hefur verið að undanfarið.
Fundinn með framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sátu einnig Gréta Gunnarsdóttir, sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Jón Erling Jónasson varafastafulltrúi og Örnólfur Thorsson forsetaritari.
Fundinn um fæðuöryggi og þurrkun matvæla sátu Robert Orr, aðstoðarframkvæmdastjóri á sviði stefnumótunar, Kandeh Yumkella, sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í málefnum hreinnar orku, Sigrid Kaag, aðstoðarframkvæmdastjóri Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNDP, David Nabarro, sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á sviði fæðuöryggis, og Anthea Webb, stjórnandi á sviði fæðu- og næringarmála.
21. september 2013