Fæðuöryggi og þurrkun matvæla
Forseti á fund með nokkrum æðstu embættismönnum Sameinuðu þjóðanna um fæðuöryggi og þurrkun matvæla. Samtvinnun hreinnar orku og eflingar fæðuöryggis í veröldinni er eitt af meginviðfangsefnum Sameinuðu þjóðanna á nýrri öld. Íslendingar hafa í áratugi þurrkað þorskhausa, beinagarða og annað sjávarfang, sem áður var hent, og flutt út til Afríku þar sem þessar afurðir nýtast almenningi. Að undanförnu hefur fyrirtækið Haustak á Reykjanesi einnig þurrkað kjöt, ávexti og grænmeti í tilraunaskyni og sýnir sú reynsla að þurrkunaraðferðum Íslendinga má beita á margvíslegar afurðir. Fundinn sátu Robert Orr, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði stefnumótunar, Kandeh Yumkella, sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í málefnum hreinnar orku, Sigrid Kaag, aðstoðarframkvæmdastjóri Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNDP, David Nabarro, sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á sviði fæðuöryggis, og Anthea Webb, stjórnandi á sviði fæðu- og næringarmála.