Kína og Norðurslóðir
Forseti á fund með sendiherra Kína á Íslandi, Ma Jisheng, um þátttöku kínverskra vísindastofnana og annarra aðila í Norðurslóðaþinginu Arctic Circle sem haldið verður á Íslandi í haust. Heimskautastofnun Kína hefur stundað margvíslegar rannsóknir á bráðnun íss á Norðurslóðum og áhrifum hennar á aukna tíðni ofsaveðurs í Asíu og öðrum heimsálfum. Þá stefna kínversk skipafélög að auknum vöruflutningum um norðurleiðirnar þar eð siglingatíminn milli Asíu og Evrópu eða Asíu og Bandaríkjanna styttist til muna með því að fara leiðir sem opnast nokkra mánuði á ári vegna bráðnunar heimskautaíssins.