Veftré Print page English

Heimsmeistaramót íslenska hestsins


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú taka á sunnudag og mánudag, 4. og 5. ágúst, þátt í Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem haldið verður í Berlín.

Á sunnudag mun forsetafrú ásamt sveit þátttakenda ríða íslenskum gæðingum að Brandenborgarhliðinu í miðborg Berlínar þar sem forseti Íslands og borgarstjóri Berlínar, Klaus Wowereit, flytja ávörp. Heimsmeistaramótið verður svo sett formlega síðdegis á sunnudag á leikvanginum í Karlshorst. Forsetafrú mun ríða með íslenska landsliðinu inn á leikvanginn og að lokinni hátíðarreið þátttakenda frá ýmsum löndum munu forseti Íslands og Jens Iversen, forseti Alþjóðasambands Íslandshestafélaga, flytja ávörp.

Forsetahjónin munu á sunnudag og mánudag fylgjast með keppni í ýmsum greinum og skoða sýningarsvæði þar sem kynntar eru ferðir til Íslands og hönnun og framleiðsla ýmissa vörutegunda sem tengjast íslenska hestinum.

Áætlað er að á annað þúsund Íslendinga sæki Heimsmeistaramótið og alls verði mótsgestir um 20.000, flestir frá Þýskalandi, Austurríki og Norðurlöndum. Þátttakendur í mótinu eru frá 17 löndum.

 

2. ágúst 2013