Veftré Print page English

Fundur með kanslara Þýskalands


Forseti á fund með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, ásamt Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra og íslenskum embættismönnum. Myndir
Á fundinum var ítarlega rætt um þróun Norðurslóða og lýsti kanslarinn ríkum vilja til að efla á næstu árum þátttöku Þýskalands í samstarfi á þeim vettvangi, einkum varðandi rannsóknir á bráðnun íss og þróun efnahagslegra umsvifa, m.a. með tilliti til opnunar nýrra siglingaleiða. Forseti Íslands áréttaði að mikilvægt væri að forysturíki Evrópu myndu, ásamt Bandaríkjunum og Kanada, efla þátttöku sína í þróun Norðurslóða. Norðurslóðir væru nú þegar vettvangur þar sem öll helstu efnahagsríki veraldar væru á einn eða annan hátt þátttakendur í stefnumótun og nefndi forseti ýmis dæmi um vaxandi áhuga ríkja í Asíu. Kanslarinn kvað Þýskaland myndi sinna Norðurslóðum af auknum krafti og lýsti við lok fundarins áhuga á að heimsækja Ísland til frekari viðræðna um samstarf á þessu sviði.
Á fundinum lýsti kanslari Þýskalands ríkum skilningi á breyttri afstöðu íslenskra stjórnvalda til viðræðna við Evrópusambandið. Eðlilegt væri að viðhorf á Íslandi og í Noregi væru önnur en á meginlandi Evrópu. Hún þekkti af eigin raun mikilvægi fiskveiða og sjávarútvegs. Evrópusambandið væri og önnum kafið við að sinna viðfangsefnum líðandi stundar en að sjálfsögðu reiðubúið til viðræðna við Íslendinga ef þess væri óskað. Áríðandi væri að slíkar ákvarðanir væru í góðu samræmi við þjóðarvilja. Á fundinum gerði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra grein fyrir stefnu íslenskra stjórnvalda í kjölfar nýliðinna Alþingiskosninga.
Á fundinum var einnig rætt um víðtæk samskipti Íslands og Þýskalands á sviði menningar og vísinda og fagnaði kanslarinn sérstaklega að farið væri til Bremen og Leipzig í þessari opinberu heimsókn.
Fyrr í dag flutti forseti setningarræðu á fjölsóttu málþingi um samstarf Íslands og Þýskalands á sviði orkumála með sérstöku tilliti til nýtingar jarðhita. Þá flutti forseti einnig ávarp á málþingi um nýsköpun og fjölbreytni í íslensku atvinnulífi þar sem fyrirtæki á sviði tónlistar, hönnunar, kvikmynda, fatnaðar, tölvuleikja og hátækni kynntu starfsemi sína.