Veftré Print page English

Fundur með forseta Þýskalands


Á fundi forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar með forseta Þýskalands Joachim Gauck, sem haldinn var í upphafi opinberrar heimsóknar í dag, 25. júní, var ítrekað að hin traustu tengsl Íslands og Þýskalands, byggð á menningu, vísindum og viðskiptum, myndu á komandi árum efla samstarf þjóðanna um málefni Norðurslóða og nýtingu jarðhita víða í Evrópu. Myndir
Ásamt forseta Íslands tóku utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson og embættismenn utanríkisráðuneytisins og forsetaskrifstofunnar þátt í fundinum og gerði ráðherra grein fyrir breyttum áherslum íslenskra stjórnvalda gagnvart Evrópusambandinu.
Í löngum og ítarlegum viðræðum forsetanna var áréttað framlag Þýskalands til íslenskrar menningar og vísinda sem og áhrif lúterskrar kirkju í Þýskalandi á trúarlíf Íslendinga, tónlist, sálma og kirkjuathafnir en forseti Þýskalands starfaði áður sem prestur.
Þróun Norðurslóða og vaxandi áhugi ríkja í Asíu og Evrópu á þeim heimshluta voru ásamt þörfinni á sjálfbærri orku bæði í Þýskalandi og öðrum Evrópuríkjum meginefni fundarins. Forseti Íslands mun heimsækja Bremerhaven en yfirvöld hafnarinnar þar hafa átt í viðræðum við íslenska aðila og þýskar vísindastofnanir sinna Norðurslóðum í vaxandi mæli. Forseti Þýskalands fagnaði sérstaklega þessari nýju vídd í samstarfi landanna og hvatti jafnframt til samvinnu á sviði sjálfbærrar orku en lausnin á orkuvanda Evrópu væri meðal brýnustu viðfangsefna komandi ára.
Að loknum fundi forsetanna lagði forseti Íslands blómsveig að minnismerki Þjóðverja um fórnarlömb styrjalda og harðstjórnar.
Í gærkvöldi tóku forsetahjónin þátt í samkomu í verkstöð Ólafs Elíassonar sem sótt var af miklum fjölda listafólks, fjölmiðlamanna og öðru áhrifafólki í menningarlífi Berlínar. Þar var leikin íslensk tónlist og Ólafur Elíasson, Halldór Guðmundsson og Guðný Guðmundsdóttir ræddu í pallborði um íslenska nútímamenningu og samskipti landanna.
Síðar í dag munu forseti og utanríkisráðherra eiga fund með dr.  Norbert Lammert, forseta þýska Sambandsþingsins, og heimsækja Humboldt háskólann þar sem rætt verður um kennslu í íslenskum fræðum og samskipti á sviði vísinda og menningar.
Í kvöld bjóða forseti Þýskalands og frú Daniela Schadt til hátíðarkvöldverðar til heiðurs íslensku forsetahjónunum.