Veftré Print page English

Norðurslóðir - Viðskiptadagur i Maine


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur í dag, föstudaginn 31. maí, ræðu á hádegisverðarfundi í Alþjóðlegri viðskiptamiðstöð Maine ríkis í Bandaríkjunum.

Ræða forseta fjallar um framlag Íslands til þróunar vöruflutninga og flugsamgangna á Norðurslóðum. Með siglingum Eimskips til Portland í Maine og flugi Icelandair til Alaska verður Ísland fyrsta ríkið á Norðurslóðum til að sinna reglubundnum vöruflutningum og farþegaflugi milli allra ríkja á svæðinu. Aukin umsvif setja nú þegar mark sitt á Norðurslóðir, bæði vegna nýtingar margvíslegra auðlinda, vaxandi ferðaþjónustu og eftirspurnar eftir sjávarafurðum.

Forseti mun í dag eiga fund með ríkisstjóra Maine, Paul LePage, sem einnig flytur ræðu á hádegisverðarfundinum.

Þá mun forseti heimsækja kynningarsvæði Eimskips á Viðskiptadegi Maine og taka þátt í öðrum viðburðum dagsins. Í gærkvöldi sat forseti kvöldverð í boði stjórnvalda ríkisins þar sem einnig voru forystumenn atvinnulífs og viðskipta á svæðinu.

31. maí 2013