Veftré Print page English

Heimsókn Finnlandsforseta. Fréttatilkynning


Opinber heimsókn forseta Finnlands Sauli Niinistö hefst á morgun, þriðjudaginn 28. maí, með móttökuathöfn á Bessastöðum klukkan 11:00. Þar munu forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú, ásamt ráðherrum í ríkisstjórn Íslands og embættismönnum, taka á móti forseta Finnlands, Sauli Niinistö, eiginkonu hans frú Jenni Haukio, og sendinefnd forseta Finnlands.

Sauli Niinistö tók við embætti forseta Finnlands í fyrra og kemur nú í fyrsta sinn í opinbera heimsókn til Íslands. Auk funda með forseta Íslands, forsætisráðherra og þingmönnum mun forseti Finnlands taka þátt í málþingi um framtíð Norðurslóða sem haldið verður í hátíðarsal Háskóla Íslands með þátttöku fulltrúa atvinnulífs, stjórnmála, vísinda og fræða. Málefni Norðurslóða eru sívaxandi þáttur í samvinnu Íslands og Finnlands og reyndar mikilvægur þáttur í samvinnu Norðurlanda allra á nýrri öld.

Að loknum fundi forseta Finnlands með forseta Íslands á Bessastöðum munu forsetarnir ræða við fréttamenn og hefst blaðamannafundurinn klukkan 12:10.

Forsetahjón Finnlands og Íslands munu snæða hádegisverð á Bessastöðum en áður heimsækja Jenni Haukio og Dorrit Moussaieff Ragnheiði Jónsdóttur listakonu að heimili hennar og vinnustofu í Garðabæ, húsi sem teiknað var af Högnu Sigurðardóttur arkitekt.

Eftir hádegisverð á Bessastöðum liggur leið forseta Finnlands í Alþingi þar sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir, starfandi forseti Alþingis, tekur á móti honum og sendinefnd hans. Þar mun forseti Finnlands eiga fund með fulltrúum allra þingflokka. Sá fundur hefst kl. 14:00.

Málþing um framtíð Norðurslóða hefst kl. 15:00 í hátíðarsal Háskóla Íslands með ávörpum forseta Íslands og forseta Finnlands. Auk þeirra munu íslenskir og finnskir vísindamenn og fulltrúar fyrirtækja flytja stuttar kynningar áður en almennar umræður hefjast. Til málþingsins, sem fram fer á ensku, er m.a. boðið alþingismönnum, sérfræðingum, forystumönnum í atvinnulífi, embættismönnum og fulltrúum fjölmiðla.

Klukkan 13:50 munu forsetafrúr Finnlands og Íslands heimsækja Barnahús og í kjölfarið Forlagið klukkan 14:35 en forsetafrú Finnlands er ljóðskáld og virkur þátttakandi í bókmenntalífi Finnlands.

Að kvöldi þriðjudagsins 28. maí bjóða íslensku forsetahjónin til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs forseta Finnlands og sendinefnd hans. Meðal gesta verða ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, forystumenn stjórnmálaflokka, rektorar háskóla og embættismenn.

Klukkan 09:00 að morgni miðvikudagsins 29. maí mun forseti Finnlands eiga fund í Ráðherrabústaðnum með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og ræða þeir að honum loknum við fréttamenn klukkan 09:45. Í kjölfarið hefst í Háskólanum í Reykjavík kynning á upplýsingatækni og nýsköpun í íslenskum hátæknigreinum. Þar munu fulltrúar ýmissa fyrirtækja og stofnana flytja kynningar en samkomunni stjórnar Ari Jónsson rektor HR.

Að morgni miðvikudagsins munu Jenni Haukio og Dorrit Moussaieff skoða íslenska hesta í Laxnesi og heimsækja Gljúfrastein, heimili Halldórs og Auðar Laxness.

Skömmu fyrir hádegi verður haldið til Þingvalla. Að lokinni skoðunarferð bjóða Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Anna Sigurlaug Pálsdóttir eiginkona hans til hádegisverðar í Þingvallabænum.

Heimsókninni lýkur síðdegis miðvikudaginn 29. maí með skoðunarferð um orkuverið í Svartsengi, heimsókn í Bláa lónið og gróðurhús ORF líftæknifyrirtækisins. Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Júlíus Jónsson forstjóri HS Orku, Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins og dr. Einar Mäntylä frá ORF munu kynna starfsemina sem fram fer á jarðhitasvæðinu.

27. maí 2013