Ríkisráðsfundir á Bessastöðum
Á morgun, fimmtudaginn 23. maí 2013, verða haldnir tveir fundir í ríkisráði á Bessastöðum.
Fyrri fundurinn hefst kl. 11:00. Á honum verða staðfest lög og stjórnvaldsaðgerðir og ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur lætur af störfum. Ljósmyndurum og fréttamönnum er heimilt að vera viðstaddir upphaf fundarins. Að honum loknum býður forseti ráðherrum fráfarandi ríkisstjórnar til hádegisverðar á Bessastöðum.
Síðari fundur ríkisráðs hefst kl. 15:00. Þar mun forseti skipa nýtt ráðuneyti, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Fréttamönnum og ljósmyndurum er heimilað að vera á Bessastöðum áður en sá fundur hefst en myndatökur af hinu nýja ráðuneyti verða við lok fundarins.
22. maí 2013