Veftré Print page English

Leiðtogafundur CNN og London Business School


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson sækir í dag, mánudaginn 20. maí 2013, Alþjóðlegan leiðtogafund, Global Leadership Summit, sem Viðskiptaskóli Lundúna, London Business School, og sjónvarpsstöðin CNN efna til. Lokaþáttur fundarins verða viðræður Richard Quest, stjórnanda viðskiptafrétta hjá CNN, við forseta um reynslu Íslendinga af glímunni við efnahagskreppuna og lærdómana sem hún felur í sér fyrir alþjóðlegar umræður og stefnumótun.

Leiðtogafundinn, sem haldinn er í London, sækja um 300 forystu¬menn úr heimi fjármála, viðskipta og fræðasamfélags. Ýmsir stjórnendur evrópskra banka og stórfyrirtæka og þekktir prófessorar eru meðal ræðumanna á fundinum sem hófst í morgun með viðræðum Richard Quest við dr. Josef Ackermann, fyrrum aðalbankastjóra Deutsche Bank.

Meginefni fundarins er að ræða um nýjar áherslur í mótun forystu og framtíðarstefnu á vettvangi ríkja og efnahagslífs, hvers vegna efnahagskenningar og stjórnkerfi, einkum í Evrópu, hafa fallið á reynsluprófi síðustu ára og hvernig þjóðir og viðskiptalíf geta lagt traustari grundvöll að framförum og hagsæld.

Ásamt CNN og London Business School standa Wall Street Journal og Deloitte að leiðtogafundinum. Umræður eru sýndar jafnóðum á netslóðinni http://gls.london.edu/ þar sem einnig er birt dagskrá fundarins. Þá verður forseti í viðtölum við sjónvarpsstöðvarnar Sky og CNN og vefmiðil London Business School.

20. maí 2013