Veftré Print page English

Heimsókn Finnlandsforseta


Forseti Finnlands Sauli Niinistö kemur ásamt konu sinni Jenni Haukio í opinbera heimsókn til Íslands dagana 28.-29. maí næstkomandi. Í för með forsetanum verður sendinefnd embættismanna og sérfræðinga í málefnum Norðurslóða.

Sauli Niinistö tók við embætti forseta Finnlands í fyrra og kemur nú í fyrsta sinn í opinbera heimsókn til Íslands. Auk funda með forseta Íslands, forsætisráðherra og þingmönnum mun forseti Finnlands taka þátt í málþingi um framtíð Norðurslóða sem haldið verður í hátíðasal Háskóla Íslands með þátttöku fulltrúa atvinnulífs, stjórnmála, vísinda og fræða. Málefni Norðurslóða eru sívaxandi þáttur í samvinnu Íslands og Finnlands og reyndar mikilvægur þáttur í samvinnu Norðurlanda allra á nýrri öld.

Þá mun forseti Finnlands kynna sér upplýsingatækni og nýsköpun í hátæknigreinum á sérstökum kynningarfundi sem haldinn verður í Háskólanum í Reykjavík og heimsækja jarðhitasvæðið í Svartsengi og fræðast um hina fjölþættu nýtingu hreinnar orku sem þar fer fram.

Ítarlegri upplýsingar um heimsóknina verða birtar í fréttatilkynningu áður en forseti Finnlands kemur til Íslands.

 

16.5.2013