Veftré Print page English

Ráðgjafanefnd Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankans um sjálfbæra orku


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur að ósk Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og Jim Yong Kim, framkvæmdastjóra Alþjóðabankans, tekið sæti í nýrri ráðgjafanefnd um sjálfbæra orku sem þeir hafa sett á laggirnar. Fyrsti fundur ráðgjafanefndarinnar hófst í morgun í höfuðstöðvum Alþjóðabankans í Washington með ræðum Ban Ki-moon og Jim Yong Kim.

Ráðgjafanefndinni er ætlað að vinna tillögur fyrir Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðabankann um eflingu sjálfbærrar orku fyrir allar þjóðir heims og leggja þannig grundvöll að Áratug sjálfbærrar orku sem hefjast mun í janúar 2014. Stjórnandi þessa starfs er dr. Kandeh K. Yumkella, framkvæmdastjóri Iðnþróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Auk forseta Íslands skipa ráðgjafanefndina tuttugu einstaklingar. Meðal þeirra eru Margaret Chan, framkvæmdastjóri WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Donald Kaberuka, forstjóri Þróunarbanka Afríku, Suleiman Jasir Al-Herbish, framkvæmdastjóri Þróunarsjóðs OPEC, Klaus Schwab, stjórnandi Alþjóða efnahagsþingsins, World Economic Forum, Edison Lobão, orkuráðherra Brasilíu, og Adnan Amin, framkvæmdastjóri IRENA, Alþjóðastofnunar um endurnýjanlega orku.

 

19. apríl 2013