Veftré Print page English

Leiðtogar Öldungadeildarinnar


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti í gær þriðjudaginn 16. apríl fund í Washington með Harry Reid, leiðtoga demókrata í Öldungadeild Bandaríkjaþings, og Mitch McConnell, leiðtoga repúblikana í Öldungadeildinni.

Á fundinum var rætt um aukið mikilvægi Norðurslóða, samstarf í Norðurskautsráðinu og áhuga forystuþjóða í Asíu og Evrópu á þátttöku í stefnumótun og framtíðarþróun Norðurslóða. Bandaríkin munu taka við formennsku í Norðurskautsráðinu eftir tvö ár og því skiptir miklu að forystusveitir beggja flokkanna á bandaríska þinginu gefi málefnum Norðurslóða aukið vægi og verði virkir þátttakendur í stefnumótun.

Á fundinum með leiðtogum demókrata og repúblikana ræddi forseti einnig nýtingu jarðhita í Bandaríkjunum og möguleika á samstarfi við íslenska vísindamenn og tæknifyrirtæki en Bandaríkin búa yfir verulegum auðlindum á sviði jarðhita sem lítt hafa verið nýttar til þessa.

Fundinn með leiðtogum beggja flokka Öldungadeildarinnar sátu einnig öldungadeildarþingmennirnir Bob Corker, forystumaður repúblikana í utanríkismálanefnd Öldungadeildarinnar og Dick Durbin varaleiðtogi demókrata í Öldungadeildinni. Fram kom hjá þeim öllum mikill áhugi á því að kynnast glímu Íslendinga við afleiðingar fjármálakreppunnar og hvernig landinu hefði tekist að auka hagvöxt á ný, draga úr atvinnuleysi og verja velferðarkerfið.

Forseti Íslands hefur undanfarna daga einnig hitt aðra öldungadeildarþingmenn: Dianne Feinstein, Tom Harkin, Jon Tester og Lisa Murkowski, þar sem málefni Norðurslóða voru einnig ítarlega rædd. Á öllum þessum fundum hafa áhrif bráðnunar íss á Norðurslóðum á veðrakerfi í Bandaríkjunum, nýting náttúruauðlinda, svo sem málma, olíu og fiskistofna, réttindi frumbyggja og þörf alþjóðlegs samstarfs um vísindalegar rannsóknir verið meðal umræðuefna. Þá var einnig rætt um vaxandi áhuga Kína, Indlands, Suður Kóreu, Singapore, Frakklands, Þýskalands og fleiri ríkja á málefnum Norðurslóða.

Í Washington mun forseti einnig taka þátt í tveimur málþingum um málefni Norðurslóða; er annað þeirra á vegum Utanríkismálaráðs Bandaríkjanna, Council on Foreign Relations, en hitt á vegum Brookings stofnunarinnar sem er meðal áhrifaríkustu rannsóknarstofnana á sviði stefnumótunar og stjórnmála í Bandaríkjunum.

Myndir og nánari frásögn má finna á heimasíðu forsetaembættisins.

17. apríl 2013