Veftré Print page English

Hringborð Norðurslóða


Í dag, 15. apríl 2013, mun forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson kynna í National Press Club í Washington nýjan alþjóðlegan vettvang sem ætlað er að efla samstarf um málefni Norðurslóða.

Að samstarfsvettvanginum, sem á ensku ber heitið Arctic Circle (arcticcirle.org) og á íslensku Hringborð Norðurslóða, hafa auk forseta unnið ýmsir forystumenn í málefnum Norðurslóða og standa Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður í Bandaríkjunum, Kuupik Kleist, fyrrum forsætisráðherra Grænlands, og Alice Rogoff, útgefandi AlaskaDispatch, meðal annarra að kynningunni í Washington. Auk þeirra eiga Artur Chilingarov, könnuður og þingmaður Dúmunnar í Rússlandi, og Albert II Mónakófursti, kunnur áhugamaður um málefni heimskautsvæðanna, aðild að þessu frumkvæði.

Fundurinn og ræða forseta verða sýnd á vefslóð National Press Club og hefst útsendingin kl. 13:00 að staðartíma (kl. 17:00 að ísl. tíma) á vefslóðinni http://press.org/events/2013-04

Hraðar breytingar á Norðurslóðum hafa leitt til brýnnar þarfar fyrir nýja og alþjóðlega samræðu með þátttöku fjölmargra ólíkra aðila, bæði frá löndum Norðurslóða og öðrum heimshlutum. Þess vegna hefur verið ákveðið að efna árlega til þessa vettvangs sem verður öllum opinn.

Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle – mun koma saman í fyrsta skipti í Hörpu í Reykjavík dagana 12.-14. október 2013. Þar verða á dagskrá margvísleg málefni Norðurslóða, svo sem bráðnun hafíss og hamfaraveður, öryggismál, fiskveiðar, stjórnun vistkerfa, sjóflutningar, nýting náttúruauðlinda, umhverfisvernd, ferðaþjónusta, orkumál, þróun Norðurslóðaréttar, viðskiptasamstarf, aðild ríkja í öðrum heimshlutum að málefnum Norðurslóða og fleira.

Í Hringborði Norðurslóða geta tekið þátt rannsóknarstofnanir, opinberir aðilar, hugmyndaveitur, almannasamtök, fyrirtæki og aðrir þeir sem taka virkan þátt í málefnum Norðurslóða. Þessir aðilar munu geta haldið sína eigin fundi og málstofur innan Hringborðsins og ákveða sjálfir dagskrárefni og málflytjendur.

Tilgangurinn með Hringborði Norðurslóða er að styðja við slíka fundi með því að safna saman sem flestum og skapa þannig tækifæri til þátttöku í víðtækri umræðu um Norðurslóðir. Listræn og menningarleg sérkenni íbúa Norðurslóða verða og kynnt í tengslum við þingið með ýmiss konar sýningum og viðburðum.

Norðurslóðir, sem eru það svæði jarðar sem nú hlýnar hraðast, eru komnar í brennidepil alþjóðlegrar umræðu. Þær leika vaxandi hlutverk í hnattvæðingu, hagþróun, orkunýtingu, umhverfisvernd og öryggismálum veraldarinnar. Ýmsar áætlanir eru uppi um nýtingu auðlinda og nýjar siglingaleiðir milli Asíu og Evrópu og Ameríku hafa beint athygli að þessu svæði með nýjum hætti.

Nánari upplýsingar um Arctic Circle – Hringborð Norðurslóða má finna á vefsetrinu arcticcircle.org; sjá einnig Arctic Wire fréttanetið sem Alice Rogoff, einn af stofnendum Norðurslóðaþingsins, stendur að.

15. apríl 2013