Veftré Print page English

Framtíð og málefni háskólanna


Forseti flytur ávarp í upphafi ráðstefnu Félags prófessora við ríkisháskólana og Fræðagarðs, félags háskólamanna, um framtíð og málefni háskólanna í landinu. Í ávarpinu rakti forseti hvernig upplýsingatækni og netvæðing eru að gjörbylta öllu starfi og skipulagi háskólanna, opna ungu fólki í öllum álfum nýjar leiðir til menntunar. Nefndi hann sem dæmi tólf ára stúlku í Pakistan sem í gegnum netið hefði sótt nám í Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Þá ítrekaði forseti nauðsyn á samvinnu allra háskólanna á Íslandi svo að erlendar vísindastofnanir og aðrir áhrifaaðilar ættu greiða leið að samstarfi við Ísland. Einnig þyrfti að veita íslenskum stúdentum tækifæri til að stunda í senn nám við alla háskóla í landinu, velja sér leiðir að eigin vali. Í reynd þyrfti að verða til nýr "Háskóli Íslands'' með aðild allra stofnana sem þó gætu haldið sínu stjórnsýslulega sjálfstæði.