Veftré Print page English

Fundir með forseta Indlands og forsætisráðherra


Forseti átti fund með Manmohan Singh forsætisráðherra Indlands í gær, fimmtudaginn 4. apríl. Þá átti forseti einnig fund með Pranab Mukherjee forseta Indlands síðdegis í dag, föstudaginn 5. apríl. Einnig hefur forseti Íslands átt viðræður við fjölmarga aðra indverskra forystumenn undanfarna daga.

Forsætisráðherra Indlands, Manmohan Singh, fagnaði því sérstaklega að Indverjar ættu nú kost á því að ungir indverskir jöklafræðingar sæktu þjálfun og reynslu til Háskóla Íslands og íslensks vísindasamfélags. Forsætisráðherrann þakkaði forseta Íslands og íslenskum vísindamönnum fyrir aðstoð þeirra við að koma á ráðstefnu um þróun jökla á Himalajasvæðinu sem haldin var fyrr í vikunni í Dehradun.

Þá lýsti forsætisráðherrann auknum áhuga Indverja á þróun Norðurslóða enda hefur Indland sótt um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Einnig var rætt um þá lærdóma sem þjóðir á Himalajasvæðinu gætu dregið af vaxandi samstarfi ríkja á Norðurslóðum og hvernig Íslendingar gætu lagt þeirri þróun lið. Indversk stjórnvöld stefna nú að víðtækri uppbyggingu þekkingar í jöklafræðum og auknum rannsóknum á áhrifum bráðnunar jökla á vatnsbúskap og efnahagslíf þjóða í Asíu.

Forsætisráðherra Indlands lýsti miklum áhuga á glímu Íslendinga við afleiðingar bankahrunsins og hvernig þeir hefðu farið aðrar leiðir en alþjóðlegar fjármálastofnanir hefðu á undanförnum áratugum boðað. Manmohan Singh er meðal þekktustu hagfræðinga Indlands, starfaði bæði sem prófessor og efnahagsráðgjafi og lagði fyrir rúmum tuttugu árum, þá sem fjármálaráðherra, grunn að nýrri efnahagsstefnu Indlands.

 Forseti kynnti og á fundinum samantekt um reynslu Íslendinga af þurrkun sjávarafurða og hugmyndir um alþjóðlegt samstarf til að stórauka þurrkun matvæla víða um heim en ýmsar alþjóðastofnanir hafa vaxandi áhuga á því að nýta þessa íslensku reynslu í þágu fæðuöryggis þróunarlanda.

Á fundi forseta með forseta Indlands fyrr í dag var einnig fjallað um samstarf á sviði jöklarannsókna og lærdómana sem þjóðir Himalajasvæðisins geta dregið af samstarfi á Norðurslóðum en forseti Indlands ítrekaði sérstaklega ósk Indlands um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Einnig var rætt um framlag Íslendinga til nýtingar hreinnar orku á Indlandi sem og hugmyndir um víðtæka þurrkun matvæla með sjálfbærri orku. Glíma Íslendinga við afleiðingar bankahrunsins og togstreita lýðræðis og fjármálamarkaðar var auk þess meðal umræðuefna fundarins en forseti Indlands gegndi embætti fjármálaráðherra þar til hann tók við embætti forseta.

Í dag flutti forseti Íslands fyrirlestur og sat fyrir svörum á vegum Indlandsdeildar Aspen stofnunarinnar. Fyrirlesturinn fjallaði um áhrif bráðnunar íss og jökla á heimskautasvæðum og í fjöllum Himalaja og nauðsyn þess að efla alþjóðlegt samstarf  um rannsóknir á þessu sviði. Þar hefði Indland mikilvægu hlutverki að gegna.

Í gær heimsótti forseti TERI háskólann í Delhi og hélt þar fyrirlestur um hagkerfi hreinnar orku og framlag þess til að efla fæðuöryggi í veröldinni. Í kjölfar fyrirlestrarins átti forseti fund með dr. R. K. Pachauri, forstöðumanni TERI og formanni Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.


Undanfarna daga hefur forseti Íslands einnig átt fjölmarga fundi með indverskum forystumönnum í þjóðmálum, vísindum, rannsóknum og tækni. Nánari lýsingar á þeim fundum og öðrum viðburðum í dagskrá forseta má finna á heimasíðu embættisins.

Myndir frá heimsókn forseta til Indlands má nálgast á heimasíðu embættis forseta, forseti.is.
 

 

5. apríl 2013