Veftré Print page English

Setningarræða í Dehradun. Himalajasvæðið - Norðurslóðir


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í morgun, mánudaginn 1. apríl, setningarræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um bráðnun jökla í Himalajafjöllunum. Ráðstefnuna, sem haldin er í Wadia jarðvísindastofnuninni í Dehradun á Indlandi, sækja vísindamenn og sérfræðingar frá Kína, Indlandi, Nepal, Pakistan, Mjanmar, Tadsjikistan og fleiri löndum á Himalajasvæðinu ásamt forystumönnum í jöklafræði frá Evrópu og Bandaríkjunum. Meðal þátttakenda eru íslenski jöklafræðingurinn Helgi Björnsson og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands. Þá hefur Dagfinnur Sveinbjörnsson stjórnmálahagfræðingur tekið þátt í undirbúningi ráðstefnunnar.

Ráðstefnan, sem á ensku ber heitið Third Pole Environment Workshop, er hin fjórða í röðinni en árið 2011 var hún haldin á Íslandi í boði Háskóla Íslands og forseta Íslands. Þá var hún tengd við Rannsóknarþing Norðursins, samstarfsvettvang fræðimanna og kjörinna fulltrúa á Norðurslóðum, en Háskólinn á Akureyri hefur verið miðstöð þess samstarfs.

Í setningarræðunni fjallaði forseti Íslands m.a. um nauðsyn víðtæks alþjóðlegs samstarfs um rannsóknir á bráðnun íss og jökla, bæði á Norðurslóðum og á Himalajasvæðinu. Þrátt fyrir að átök og hernaðaruppbygging hefðu á fyrri áratugum sett svip á Norðurslóðir hefði tekist að þróa þar á síðastliðnum 10-15 árum afar árangursríkt samstarf. Reynsla þjóðanna sem ættu aðild að Norðurskautsráðinu gæti á ýmsan hátt verið fróðlegt fordæmi fyrir samfélögin á Himalajasvæðinu.

Forseti rakti einnig að aukna tíðni ofsaveðra og breytinga á veðurfari í Asíu mætti m.a. rekja til bráðnunar íss á Norðurslóðum. Samstarf vísindamanna sem stunduðu rannsóknir á Himalajajöklum við fræðasamfélög á Norðurslóðum væri mikilvægt framlag til að efla skilning á áhrifum bráðnunar íss og jökla á lífsskilyrði, hagsæld og velmegun allra jarðarbúa.
 
Frumkvæðið að Third Pole Environment samstarfinu höfðu vísindamennirnir Yao Tandong, prófessor við kínversku vísindaakademíuna og forstöðumaður rannsóknarstofnunar um tíbetsku hásléttuna, Volker Mosbrugger, prófessor og forstöðumaður Senckenberg náttúrufræðistofnunarinnar í Frankfurt, og Lonnie Thompson, prófessor við The Ohio State University, og hefur það þróast í að verða einn helsti samráðsvettvangur um rannsóknir á jöklum, vatnsbúskap og náttúru Himalajasvæðisins en um öll þau efni verður fjallað ítarlega á ráðstefnunni í Dehradun.
 
Forseti Íslands mun síðar í vikunni eiga fundi í Delhi með ýmsum forystumönnum Indlands.

Myndir frá ráðstefnunni má nálgast á heimasíðu embættis forseta.


1. apríl 2013