Ráðstefna stúdentaleiðtoga
Forseti flytur ávarp í upphafi ráðstefnu leiðtoga stúdentafélaga á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum sem haldin er í Háskóla Íslands. Þar er fjallað um atvinnuhorfur og frumkvöðlaþjálfun í ljósi breytinga á upplýsingatækni og þróun hagkerfa samtímans. Í ávarpinu hvatti forseti til endurskoðunar á grunnforsendum háskólastarfsemi til að auðvelda námsmönnum að hrinda í framkvæmd hugmyndum sínum og nýsköpun enda sláandi dæmi að nokkur stærstu fyrirtæki heims hefðu verið stofnuð af námsmönnum. Einnig væri athyglisvert hvernig þjóðirnar í Norður-Evrópu hefðu á undanförnum áratugum verið frjór vettvangur fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf.