Veftré Print page English

Miðstöð vöruflutninga og flugs á Norðurslóðum


Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, lýsti fyrr í dag, fimmtudaginn 28. febrúar, í ræðu á ráðstefnu Fransk-íslenska viðskiptaráðsins í París hvernig Ísland sé óðum að verða miðstöð vöruflutninga og flugs á Norðurslóðum í krafti reglulegra siglinga íslenskra skipafélaga og áætlunarflugs Icelandair.

Eimskip og Samskip séu nú þegar helstu skipafélögin sem flytji vörur til og frá norðurhéruðum Bandaríkjanna og Kanada, Grænlandi, Færeyjum, Noregi og Rússlandi og sé Ísland þjónustumiðstöð fyrir þessa víðtæku flutninga.

Þegar Icelandair hefji áætlunarflug til Anchorage í Alaska og Pétursborgar í Rússlandi nú í vor verði Icelandair fyrsta flugfélagið í veröldinni sem sinni reglulegu áætlunarflugi til allra landa á Norðurslóðum.

Þessi nýja staða skapi Íslandi fjölda tækifæra í ljósi hinnar hröðu þróunar vaxandi umsvifa, framkvæmda og ferðamennsku á Norðurslóðum. Með tengingum íslenskra skipafélaga við hafnir í Evrópu og reglulegu áætlunarflugi Icelandair til Parísar væri Ísland hagkvæmasta miðstöðin fyrir tengsl Frakka við Norðurslóðir, svo sem vöruflutninga og ferðaþjónustu, en vaxandi áhugi franskra stjórnvalda á Norðurslóðum hefur komið skýrt fram í heimsókn forseta Íslands til Frakklands undanfarna daga.


28. febrúar 2013