Veftré Print page English

UNESCO


Forseti á fund með Irina Bokova, framkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), þar sem rætt var um framlag íslenska vísinda- og fræðasamfélagsins til starfsemi UNESCO, þátt menningar og nýsköpunar í glímu Íslendinga við efnahagskreppuna og hvernig UNESCO leggur vaxandi áherslu á eflingu kunnáttu á sviði hreinnar orku og rannsóknir á jöklum og heimshöfum. Þá var einnig fjallað um möguleika á fjölþættara framlagi Íslendinga til heimsminjaskrár UNESCO, m.a. að íslenski torfbærinn yrði flokkaður sem heimsminjar. Einnig var rætt um hinar einstöku ljósmyndir Ragnars Axelssonar af frumbyggjum á Norðurslóðum og hvernig sýningar á þeim, t.d. á vegum UNESCO, gætu eflt skilning á örlögum fólks á tímum loftslagsbreytinga og bráðnunar íss og jökla. Sýning Ragnars ber heitið Veiðimenn norðursins (Last Days of the Arctic). Myndir (RAX). Sjá einnig umfjöllun á vef UNESCO.