Franska þingið. Íslandsdeild
Forseti heimsækir franska þjóðþingið og ræðir við hóp þingmanna frá Assemblée nationale, og síðan við Íslandsdeild franska þingsins sem skipuð er hópi þingmanna sem sinnir sérstaklega tengslum við Ísland. Að því loknu heimsótti forseti öldungadeildina (Sénat) og ræddi þar við forseta og varaforseta hennar og hóp þingmanna. Á öllum fundunum var fjallað um lærdómana af endurreisn efnahagslífsins, samvinnu Íslendinga og Frakka í málefnum Norðurslóða og nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita í Frakklandi. Mikill áhugi er á auknum tengslum við Ísland og rætt er um hugsanlegar heimsóknir franskra þingmanna til landsins. Þá var einnig fjallað um stöðu mála í Evrópu, erfiðleikana á Evrusvæðinu og ólíkar áherslur einstakra landa varðandi lausnir á komandi árum. Myndir frá heimsókn forseta í Þjóðþingið (ljósmyndari: RAX).