Fundur með forseta Frakklands
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, átti síðdegis í dag fund með François Hollande, forseta Frakklands, í Elysée höll þar sem rætt var um aukna samvinnu á Norðurslóðum, nýtingu hreinnar orku, glímuna við fjármálakreppuna í Evrópu og reynslu Íslendinga á undanförnum árum.
Forseti Frakklands lýsti miklum áhuga á þeim árangri sem Íslendingar hefðu náð í kjölfar bankahrunsins og rakti forseti Íslands að aðferðir Íslendinga hefðu á ýmsan hátt verið aðrar en beitt hefði verið á síðustu árum í Evrópu og fyrir tveimur áratugum í fjármálakreppunni í Asíu. Leitast hefði verið við að verja eftir föngum velferðarkerfið, heilbrigðisþjónustu og menntun. Auk þess hefði áhersla verið lögð á umbætur á sviði stjórnsýslu og lýðræðis, sem og eflingu réttarkerfis enda hefði fjármálakreppan haft í för með sér margvíslegan þjóðfélagslegan vanda.
Forseti Frakklands sagði að mikilvægt væri að ræða þá lærdóma sem önnur Evrópuríki gætu dregið af þróun mála á Íslandi en glíman við fjármálakreppuna setur um þessar mundir mjög svip sinn á frönsk þjóðmál og stöðu Evrópu.
Þá ítrekaði forseti Frakklands vaxandi áhuga franskra stjórnvalda og vísindasamfélags á þróun Norðurslóða en í fyrra voru undirritaðir samningar um rannsóknarsamstarf franskra og íslenskra háskóla á þessu sviði. Forseti Íslands fagnaði áhuga Frakka á málefnum Norðurslóða sem m.a. hefði birst í tveimur heimsóknum sérstaks sendimanns Frakklandsforseta, Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra, til Íslands á undanförnum árum.
Þá kom fram að viðskipti Íslands og Frakklands sem og víðtækt samstarf á sviði menningar og lista væru sem áður burðarásar í samskiptum landanna. Fjöldi franskra ferðamanna til Íslands hefur tvöfaldast á nýliðnum árum og bækur íslenskra rithöfunda njóta vaxandi hylli meðal franskra lesenda.
Forseti Íslands vakti jafnframt athygli á fjölþættum tækifærum í samvinnu á vettvangi orkumála, ekki síst varðandi hugsanlega nýtingu jarðhita í Frakklandi, enda yrði m.a. fjallað um þau efni á ráðstefnu sem Fransk-íslenska verslunarráðið efnir til í París síðar í vikunni.
Fundinn í Elysée höll sátu jafnframt Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Frakklandi, Örnólfur Thorsson forsetaritari, Marc Bouteiller, sendiherra Frakka á Íslandi, og embættismenn forseta Frakklands.
Eftir fund sinn með forseta Frakklands heimsótti forseti einnig báðar deildir franska þingsins og átti fund með Íslandsdeild franskra þingmanna sem Lionel Tardy veitir forstöðu.
Myndir frá fundum forseta í dag má nú nálgast á heimasíðu embættisins.
26. febrúar 2013