Veftré Print page English

Fyrirlestur um Norðurslóðir


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í morgun fyrirlestur um framtíð Norðurslóða og loftslagsbreytingar við Pierre et Marie Curie háskólann í París. Fyrirlesturinn sóttu sérfræðingar, vísindamenn og stúdentar auk sérstaks sendimanns Frakklandsforseta í málefnum heimskautasvæðanna, Michel Rocard, sem einnig flutti ávarp.

Í fyrirlestrinum rakti forseti hvernig alþjóðlegur áhugi á Norðurslóðum hefði vaxið á undanförnum árum. Ríki í Evrópu og Asíu sæktust eftir aðild að Norðurskautsráðinu og vísindamenn víða að stunduðu rannsóknir á bráðnun íss og jökla. Lýsti forseti heimsókn kínverska vísindaleiðangursins sem kom á Snædrekanum til Íslands síðastliðið sumar, viðvörunum kínversku vísindamannanna um að hröð bráðnun hafíss á Norðurslóðum myndi leiða til veðurhamfara í Kína og víðar um heim eins og komið hefðu fram nú í vetur; aftakaveður og frosthörkur hefðu valdið gífurlegu tjóni í Kína.

Þá ræddi forseti að mikilvægt væri að tengja saman rannsóknir á helstu jöklasvæðum heims – Norðurslóðum, Suðurskautslandinu og Himalajasvæðinu – til að öðlast dýpri skilning á hættunum sem fylgja munu bráðnun íssins. Auk veðurhamfara myndi hröð hækkun sjávarborðs ógna borgum og byggðum um allan heim.

Eftir fyrirlesturinn svaraði forseti fyrirspurnum og var viðstaddur opnun sýningar á ljósmyndum Ragnars Axelssonar (RAX) sem ber heitið Veiðimenn norðursins (Last Days of the Arctic).

Í gær átti forseti fund með Michel Rocard í franska utanríkisráðuneytinu þar sem þessi mál voru rædd ítarlega, m.a. fjallað um þörfina á öflugum, opnum, alþjóðlegum vettvangi þar sem ólíkir aðilar gætu borið saman bækur sínar um þróun Norðurslóða.

Í gær sótti forseti móttöku sem sendiherra Íslands í Frakklandi, Berglind Ásgeirsdóttir, hélt fyrir franska þingmenn og embættismenn, sendiherra erlendra ríkja og Íslendinga búsetta í París og nágrenni.

Fyrirlestur forseta, sem var fluttur á ensku og ber heitið The New Arctic in our Ice-Dependent World, má nálgast á heimasíðu embættisins forseti.is þar sem einnig eru myndir frá heimsókninni.

26. febrúar 2013