Veftré Print page English

Heimboð til Bessastaða


Í dag verður forsetasetrið að Bessastöðum opið almenningi sem liður í Vetrarhátíð og Safnanótt 2013. Gestum býðst að skoða Bessastaðastofu og Bessastaðakirkju milli klukkan 16:00 og 20:00.
Auk hinna merku steinhúsa frá 18. öld geta gestir virt fyrir sér fjölbreytt sýnishorn gjafa, sem forseta og þjóðinni hafa borist, og merkar fornleifar sem veita innsýn í sögu búsetu og starfsemi á Bessastöðum frá landnámstíð. Þá hefur kirkjan ýmsa merka gripi að geyma og fyrsti forsetabíll lýðveldissögunnar, Packard bifreið Sveins Björnssonar, mun standa í hlaði Bessastaða en bifreiðin er ríflega sjötug, árgerð 1942.
Sérfræðingar verða til leiðsagnar auk þess sem nemar í fornleifafræði við Háskóla Íslands munu aðstoða starfsfólk við að taka á móti gestum. Séra Hans Guðberg Alfreðsson prestur í Garðaprestakalli, Margrét Gunnarsdóttir djáknakandídat og María Birna Sveinsdóttir á Jörva á Álftanesi verða í Bessastaðakirkju og segja frá kirkjunni sem er meðal elstu steinhúsa landsins. Rakel Pétursdóttir deildarstjóri fræðsludeildar á Listasafni Íslands segir frá þeim fjölmörgu málverkum sem prýða veggi forsetasetursins. Halldóra Pálsdóttir, sem var starfsmaður forsetaembættisins í áratugi, allt frá tíð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta, tekur á móti gestum á lofti Bessastaðastofu og segir frá þeim fjölmörgu gripum sem þar má sjá, sýnishornum gjafa til forseta og þjóðarinnar undanfarna áratugi. Þá mun Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur og fagstjóri fornleifa hjá Þjóðminjasafni Íslands segja frá fornleifauppgreftinum á Bessastöðum og leiðsegja gestum um fornleifakjallarann undir Bessastaðastofu.