Veftré Print page English

Alþjóða efnahagsþingið í Davos


Forseti sækir í þessari viku Alþjóða efnahagsþingið, World Economic Forum, sem haldið er í Davos í Sviss. Þingið sækja þjóðarleiðtogar víða að úr veröldinni, sérfræðingar, forystumenn í atvinnulífi og viðskiptum, fulltrúar almannasamtaka og baráttuhreyfinga sem og stjórnendur margra alþjóðastofnana.

 

Forseti ræddi í morgun við alþjóðlegu sjónvarpsstöðvarnar CNN, Bloomberg, Fox og Sky og mun einnig ræða við ríkissjónvarpið í Kína CCTV, arabísku sjónvarpsstöðina Al Jazeera og fleiri fjölmiðla, m.a. um þróun efnahagslífs á Íslandi, samspil lýðræðis og markaða og málefni Norðurslóða.

 

Í morgun flutti forseti ávarp á málstofu um hlutverk almannasamtaka, baráttuhreyfinga, málefnahópa og annarra sjálfsprottinna samtaka almennings í viðbrögðum nútíma þjóðfélaga við alvarlegum áföllum, bæði efnahagslegum og af völdum náttúruafla. Ræddi forseti um áhrif almennings og baráttusamtaka á stefnuna sem tekin var í kjölfar bankahrunsins og hlutverk sjálfboðaliða, Landsbjargar, Rauða krossins og annarra í hjálparstarfi í kjölfar margvíslegra náttúruhamfara.

 

Þá mun forseti taka þátt í nokkrum fundum um Norðurslóðir, brýn verkefni í kjölfar hlýnunar jarðar og um vaxandi áhuga margra ríkja á náttúruauðlindum á Norðurslóðum og opnun nýrra siglingaleiða.

 

Einnig mun forseti sækja fundi um verndun og nýtingu úthafanna, nýsköpun lýðræðis og þróunina í Evrópu ásamt því að eiga fundi með ýmsum forystumönnum sem sækja Efnahagsþingið, stjórnendum alþjóðastofnana og þjóðarleiðtogum.

 

21.1.2013