Ofsaveður. Loftslagsbreytingar. Umræða á DLD
Forseti tekur þátt í pallborðsumræðum á DLD ráðstefnunni í München um samspil bráðnunar íss á Norðurslóðum, aukinnar tíðni ofsaveðra og loftslagsbreytinga. Ráðstefnan er helguð tækni, menningu og samfélagsþróun. Auk forseta tóku þátt í þessum pallborðsumræðum David Kenny frá sjónvarpsstöðinni Weather Channel, Ernst Rauch frá tryggingafélaginu Munich Re og Johannes Meier frá Loftslagsstofnun Evrópu (European Climate Foundation). Umræðunum stjórnaði Spencer Weiss frá Wired Magazine. Forseti lýsti m.a. rannsóknum kínversku heimskautastofnunarinnar á áhrifum bráðnunar íss á Norðurslóðum á vetrarhörkur í Kína og hvatti til þess að fyrirtæki í upplýsingatækni framleiddu hugbúnað sem jafnóðum kæmi á framfæri við almenning upplýsingum um samspil bráðnunar íss og hamfaraveðra víða um veröld. Einnig hvatti forseti til þess að borgaryfirvöld í öllum löndum og tryggingafyrirtæki færu að taka tillit til áhrifa hættunnar af hækkun sjávarborðs á framtíðarskipulag borga og tryggingaiðgjöld. Myndir.