Veftré Print page English

Árbók Norðurslóða


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur tekið sæti í ritstjórn Árbókar Norðurslóða, Arctic Yearbook, sem ýtt var úr vör í gær með útgáfu fyrstu árbókarinnar.

Árbók Norðurslóða er ætlað  að vera vettvangur fyrir stefnumótandi greinar, umræðu og rannsóknir sem snúa að framtíð Norðurslóða. Ritstjórnina skipa fræðimenn frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Kanada, Kína og Norðurlöndum auk formanns Norðurskautsráðsins. Ritstjóri Árbókarinnar er Lassi Heininen, prófessor við háskólana í Helsinki og Rovaniemi. Hann hefur einnig kennt við Háskólann á Akureyri og er stjórnarformaður Rannsóknarþings Norðursins sem forseti Íslands átti frumkvæði að fyrir rúmum áratug.

Í fyrstu Árbókinni er m.a. fjallað um nýjar siglingaleiðir á Norðurslóðum, aðild ríkja í Asíu og Evrópu, svo sem Kína, Japan, Singapore, Frakklands og Bretlands, að málefnum Norðurslóða, breytingar á náttúru og umhverfi og áhrif frumbyggja á framtíð Norðurslóða. Þá er einnig fjallað um þróun Norðurslóða frá því Mikaíl Gorbatsjov, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, flutti hina frægu Murmanskræðu fyrir aldarfjórðungi.

Árbókin kemur út á netslóðinni www.arcticyearbook.com.

27. nóvember 2012