Heimsókn til sauðfjárbænda á Norðurlandi
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsækja í dag, mánudaginn 19. nóvember og á morgun, þriðjudaginn 20. nóvember, sauðfjárbændur í Þingeyjarsýslu, Skagafirði og Húnaþingi sem glímt hafa við afleiðingar veðuráhlaupsins í vetrarbyrjun og háð harða baráttu við að ná fé úr fönn. Margir hafa misst verulegan hluta bústofns síns. Þá munu forsetahjónin heimsækja tvo grunnskóla til sveita sem og Framhaldsskólann á Laugum og Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki.
Í gær voru forsetahjónin heiðursgestir á tónleikum í Hofi á Akureyri þar sem fjöldi söngvara og tónlistarfólks lagði lið landssöfnun í þágu sauðfjárbændanna. Forseti flutti ávarp á tónleikunum og hvatti til samstöðu landsmanna með bændum sem glímdu við mikla erfiðleika.
Heimsóknin hófst í morgun á Húsavík þar sem fulltrúar björgunarsveita, Rauða krossins, Samstarfshóps um áfallahjálp, Landssambands sauðfjárbænda og fleiri aðilar lýstu glímunni við hamfarirnar í vetrarveðrinu. Fundinum stjórnaði Svavar Pálsson sýslumaður sem á sínum tíma stýrði aðgerðum.
Frá Húsavík héldu forsetahjónin í morgun til Reykjahlíðarskóla við Mývatn og upp úr hádeginu munu þau heimsækja bændur á Skútustöðum II og í Baldursheimi. Þaðan fara þau svo í Framhaldsskólann á Laugum og ræða við nemendur og skólastjórn.
Á morgun, þriðjudaginn 20. nóvember, munu forsetahjónin heimsækja bændur á Brúnastöðum og Þrasastöðum í Fljótum í Skagafirði og Grunnskólann austan Vatna í Sólgörðum. Um hádegið koma þau í Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki, snæða hádegisverð á heimavistinni og ræða við nemendur á sal. Frá Sauðárkróki halda þau síðan að Stóru Giljá í Húnaþingi.
19. nóvember 2012